Það er alltaf skringilegt þegar fólk byrjar að þylja upp afsakanir fyrir tapinu áður en sjálf keppnin hefur farið fram. Mér sýndist Heimdallarformaðurinn þó grípa til þess í Silfri Egils í dag.
Aðspurð um stöðu mála í skoðanakönnunum (sem er hugsanlega geldasta pólitíska umræða sem til er) fór hún strax að fabúlera á þeim nótum að líklega myndu vinstrimenn komast til valda eftir að Ólafur Ragnar myndi með bellibrögðum færa þeim stjórnarmyndunarumboðið eftir kosningar. Við þetta bætti hún einhverju á þá leið að það yrði algjör skandall ef formaður stærsta stjórnmálaflokksins fengi ekki umboðið að kosningum loknum.
Ég upplifði Déjá-vú tilfinningu og upp í hugann komu hin árvissu Reykjavíkurbréf þar sem Styrmir ergir sig yfir því að Kristján Eldjárn hafi falið kommúnista stjórnarmyndunarumboð í gamla daga. En Sjálfstæðismenn eru greinilega strax farnir að tala sig upp í að möguleg brottför þeirra úr Stjórnarráðinu verði Ólafi Ragnari að kenna.
En gaman væri að fá að vita eftir hvaða reglum Sjálfstæðismenn telja eðlilegt að stjórnarmyndunarumboð sé veitt? Ef marka má Heimdallarformanninn, á stærðarröð flokka ein að ráða. Þá skiptir ekki máli hvort ríkisstjórn stendur eða fellur, hvort sitjandi forsætisráðherra kemur úr stærsta flokknum eða ekki – stærsti flokkurinn á að fá umboðið fyrst, þá sá næststærsti og svo koll af kolli.
Þessi vinnuregla er afar einföld og myndi gera hlutverk forseta við stjórnarmyndun afar veigalítið, nema þá kannski til að ákveða hversu langan tíma hver flokksforingi hefði til ráðstöfunar – og svo hugsanlega til að bregðast við þegar allir flokkar væru búnir að reyna einu sinni.
Gallarnir við að fylgja þessari reglu stíft eftir eru hins vegar margir og býsna augljósir.
Gaman væri að vita hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðna stefnu í þessu máli – eða hvort formaður Heimdallar var að lýsa prívatskoðun. Mun höfundur Reykjavíkurbréfa t.d. sætta sig við það ef kommúnista verður falið stjórnarmyndunarumboð í krafti stærðar flokks hans – eða gildir reglan bara fyrir lýðræðisflokkana? Hvað segja bændur nú?
# # # # # # # # # # # # #
Borgarmálapólitíkusinn Marsibil er foxill út í barmmerkin sem ég er að dunda mér við að pressa fyrir framan sjónvarpið þessi kvöldin. Hún spyr sig hvernig standi á því að Vinstri græn eyði svona mikilli orku í að berja á Framsóknarflokknum?
Stundum eru augljósustu skýringarnar réttastar – þótt það fari reyndar framhjá Marsibil í þessari greiningu hennar – Vinstri grænum er einfaldlega illa við Framsóknarflokkinn og allt það sem hann stendur fyrir. Það er nú ekki flóknara en svo.
Og auðvitað er þessi afstaða ekki frumleg. Hún er klassísk.
Af hverju ekki netheimar með… ZERO Moggablogg?
(Viðbót 28.3.: Eyþór Arnalds hefur greinilega þungar áhyggjur af þessari barmmerkjagerð og hver gæti staðið á bak við hana.)