Það var boðið upp á margar furðulegar fréttir í dag, sem vera ber. Sú skringilegasta var þó ekki gabbfrétt, heldur sá uppsláttur að stuðningsmenn álversins segist hafa „rökstuddan grun“ um að 700 andstæðingar hafi flutt lögheimili sitt í Hafnarfjörðinn og þannig ráðið úrslitum. Þessu var svo slegið upp í öllum helstu fjölmiðlum – það eru slök vinnubrögð.
Látum vera ef álverssinninn hefði staðhæft að andstæðingar hans hafi beitt bellibrögðum, skrökvað eða haft í hótunum – þar hefði að miklu leyti verið um huglægt mat að ræða og því sjálfsagt að sú skoðun hefði fengið að koma fram. En hér er um að ræða staðhæfingu sem á að vera hægðarleikur að rökstyðja eða afsanna með einföldu símtali til þjóðskrár – eða jafnvel með því að rýna í gögn sem má meira eða minna finna á netinu.
Með einu símtali hefði mátt komast að því hversu margir færðu lögheimilið til og frá Hafnarfirði fyrstu mánuði þessa árs, samanborðið við fyrri ár. Ef munurinn á þeim tölum er fjarri því að nema 700 manns, liggur beint við að afgreiða talsmanninn sem rugludall og henda „fréttinni“ í ruslið.
En það er auðvitað ekki eins þægilegt – eða skemmtilegt – fyrir fréttamanninn. Það er miklu betra að reka hljóðnemann framan í viðmælanda sem slær fram órökstuddri tilgátu og kynna hana til sögunnar sem ásökun viðkomandi aðila og bíða þess að einhver annar reyni að hrekja hana – frekar en að kanna sjálfur trúverðugleika frásagnarinnar.
Hlutverk fréttamannsins hlýtur að vera annað og meira en að skrásetja samsæriskenningar viðmælenda sinna og snara þeim í loftið án athugunnar. Það er úrvinnslan og rannsóknarvinnan sem gerir frásögnina að frétt. Kannski fréttastofurnar séu farnar að trúa öllu hæpinu í kringum bloggið og taki sér það núna til fyrirmyndar? Það þyrfti þá ekki að koma á óvart þótt heimildarmaður álverssinnans hafi sínar pottþéttu heimildir frá þriðja manni, sem hleraði fyllerísraus á Ölstofunni?
# # # # # # # # # # # # #
Annars myndi ég taka ofan fyrir hverri þeirri hreyfingu sem næði að sannfæra 700 manns um að flytja lögheimilið sitt í annað sveitarfélag. Það er tómt bögg og vesen sem fylgir því að hafa lögheimilið og raunverulegt heimili hvort á sínum staðnum. Bankar, opinberar stofnanir, félagasamtök o.fl. uppfæra í sífellu skrár sínar í samræmi við þjóðskrá.
Nú getur vel verið að góðhjartaðir Reykvíkingar elski Kapelluhraunið, en elska þeir það nógu heitt til að sækja allan póstinn sinn í Fjörukránna?
# # # # # # # # # # # # #
Það var grátlegt að sjá MK-inga henda frá sér unnum úrslitaleik í GB á föstudagskvöld. Kópavogsbúar voru betra liðið í úrslitunum og eru í mínum huga klárlega lið ársins. MK, Versló og MR eru í mínum huga sigurstranglegustu lið næsta árs – jafnvel í þessari röð. Akureyri og Hamrahlíð eru þar skammt á eftir. Það er fágætt að svona margir skólar hafi sterkum liðum á að skipa í einu – sem er hið besta mál.
# # # # # # # # # # # # #
Ríkisútvarpið er orðið ohf eða eitthvað álíka. Það þýðir að fækkað er um nokkra millistjórnendur og peningarnir sem sparast leggjast oná laun nokkurra yfirmanna.
Jafnframt hefur „nýja“ fyrirtækið þá yfirlýstu stefnu að auka enn hlutfall „íslenskrar dagskrárgerðar“. Það þýðir á mannamáli að við megum búast við enn fleiri beinum útsendingum frá Íslandsmótinu í hniti og blaki – enda fást þá margar ódýrar mínútur af „íslensku efni“. Stuð!
Á fjölskylduboði í dag var staðhæft í mín eyru að RÚV skilgreindi útsendingar frá Formúlunni sem „innlenda dagskrárgerð“ þar sem þar væri þulur í stúdíói að lýsa. Gaman væri að vita hvort þetta sé rétt.
# # # # # # # # # # # # #
Ef marka má einkabankann, er ég ekki búinn að fá launin mín fyrir þessi mánaðarmót. Það er ergilegt í ljósi þess að hinar og þessar greiðslur eru gjaldfærðar alveg í mánaðarbyrjun – og það má treysta því að bankinn rukkar sem mest hann má fyrir allar framúrkeyrslur.
Megi Moggabloggið lenda í sjóðþurrð!