Glundroðakenningin er eftirlætis klisja Sjálfstæðismanna. Frá því að ég byrjaði að fylgjast með pólitík hefur íhaldið kyrjað þessa sömu möntru – um að fjölflokkastjórnir leiði aðeins til glundroða og sundrungar. Fyrir einar kosningarnar dreifðu þeir meira að segja púsluspilum til allra Reykvíkinga þar sem listabókstafir raunverulegra og uppdiktaðra flokka mynduðu kraðak, meðan hin hliðin var sallafín og heildstæð, merkt D-listanum. (Þetta var reyndar dálítið töff áróður.)
En á dauða mínum átti ég von, en ekki að heyra draugfúla borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fara með glundroðakenninguna á tröppunum fyrir framan heimili fráfarandi borgarstjóra. – Það er sem sagt alveg glatað að vera með fjögurra flokka meirihluta…
Hvað er að fólkinu? Hversu firrtur er hægt að vera?
Sjálfstæðisflokkurinn var frá völdum í Reykjavík í tólf ár. Hann lagði allt í sölurnar til að ná völdum aftur. Þegar það loksins tókst gat hann valið úr samstarfsflokkum – hann spilaði með Frjálslynda og valdi að lokum Framsóknarflokkinn, með sinn eina fulltrúa á móti sjö fulltrúum íhaldsins.
Og hvað gerðist? Jú, á einu og hálfu ári tókst Sjálfstæðisflokknum að fokka þessu upp. Eftir nokkurra daga opinber hjaðningavíg sprakk meirihlutinn fyrir allra augum með eftirminnilegum hætti. Borgarstjóratíð Vilhjálms Þórmundar er líklega sú snautlegasta í gjörvallri sögu borgarstjóraembættisins frá árinu 1908. Það eru hundrað ár.
írni Sigfússon markaði dýpri spor í sögu borgarinnar á sínum hundrað dögum (eða hvað það var nú aftur langt).
En þrátt fyrir þetta – telja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sig þess umkomna, og það á sínum stærsta niðurlægingardegi, að leggja öðrum lífsreglurnar og þenja sig um það hvað sé lífvænlegur fjöldi aðildarflokka í meirihluta borgarstjórnar…
Þessir Sjálfstæðismenn eru klikk!
# # # # # # # # # # # # #
Framararnir unnu Aftureldingu í handboltanum í kvöld. Við virðumst vera með hörkulið í ár.
Stelpurnar eru líka að blómstra, sem er frábært þar sem það er löng hefð fyrir því að meistaraflokkur kvenna í handbolta sé flaggskip Fram. Kvennahandboltaliðið okkar hefur að mörgu leyti sömu mórölsku stöðu og blakliðin hjá Þrótti, kvennaknattspyrnuliðið hjá Breiðabliki eða körfuboltaliðin suður með sjó.
Á laugardaginn ætla ég á aðalfund MS-félagsins, en ef hann klárast snemma getur meira en verið að ég fari vestur á Seltjarnarnes að horfa á Framstelpurnar keppa við Gróttu. Kannski dreg ég Steinunni með. Hún hefur gott af æfingunni, því nóg verður af leikjum þegar Ólína verður orðin drottningin á línunni hjá Fram eftir 16-17 ár.
# # # # # # # # # # # # #
Og talandi um Ólínu…
…barnið sló víst met í krúttheitum og lymskubrögðum í kvöld.
Ég var á Dagfara-fundi í Friðarhúsi og Steinunn heima með grísinn. Ólína vildi ekki sofna og var með ýmis konar stæla. Að lokum var Steinunn orðin verulega pirruð og farin að hasta á krakkann.
Þá sá sú stutta sé leik á borði, settist upp og sagði: „íþþland úr nató, heðinn buðt?“ – Auðvitað bráðnaði mamman eins og smér.
Hvað segir maður við svona? Ég efast ekki um það í eina sekúndu að Ólína vissi nákvæmlega hvað hún var að gera – að hún yrði ekki skömmuð eða skipað að fara að sofa.
Nú er það ákveðið áhyggjuefni að tveggja og hálfs árs barnið sé orðið svona útsmogið við að vefja foreldrum sínum um fingur sér… en á sama tíma verður maður eiginlega að taka ofan fyrir henni.
Og hvar lærir stelpan þessi ósköp? Ekki hjá foreldrunum – við höfum aldrei haft þetta fyrir henni. Enda kom skýringin í ljós þegar Steinunn spurði hana hvar hún hefði heyrt þetta: „Amma mín kalla þetta!“
Þessar ömmur…