Á morgun fór ég með bílinn hennar Steinunnar í umfelgun. Þær mæðgurnar fóru nefnilega í dag norður í sveitina til Ólínu eldri og Valda. Þar eru blindir kettlingar sem barnið ætlar að leika sér við – eða „kettlingar sem kunna ekki að opna augun“ eins og hún hefur ákveðið að kalla þá.
Ég ákvað að vera klókur og var mættur á dekkjaverkstæðið laust fyrir klukkan átta. Það hefði svínvirkað ef yfirmaðurinn – sem er greinilega einn með lyklavöld – hefði ekki sofið yfir sig. Fyrir vikið norpuðum við fyrir utan: ég, 3-4 aðrir viðskiptavinir og hellingur af starfsmönnum.
Þegar sá með lyklana mætti loksins tók við mikil umstöflun á dekkjum áður en hægt var að byrja að afgreiða bíla. Á meðan reyndi maður eitthvað að spjalla við hina kúnnana.
„Það eru ótrúlega margir að vinna hérna – á ekki stærra verkstæði“, sagði ég til að brydda upp á umræðum. „Já, blessaður vertu. Þetta eru allt Pólverjar!“, svaraði maðurinn við hliðina á mér. „Allt saman Pólverjar. Skilja ekki neitt. Það hlýtur að vera mikil vinna að stýra þessu…“ – bætti hann við.
Ég varð frekar undrandi, þar sem mér hafði einmitt sýnst að þetta væru íslenskir strákar og fór að leggja mig eftir því að hlusta á þá tala saman. Eftir smátíma var ég búinn að komast að þeirri niðurstöðu að þarna væru sjö íslenskir strákar og kannski einn útlendingur – sem gæti raunar hafa verið þögull og óframfærinn Íslendingur.
Skömmu síðar rakst ég aftur á bíleigandann óþolinmóða. Hann tilkynnti mér glaðhlakkalegur að einum Pólverjanum hefði tekist að koma því út úr sér að eitt dekkið hans læki. Það var ekki laust við að hann væri stoltur af tungumálafærni sinni í samskiptum við útlendingana…
Svona getur þetta verið – ef menn búast við því að vera afgreiddir af Pólverjum, þá virðast afgreiðslumennirnir hreinlega geta breyst í Pólverja…