Um helgina blésum við Kolbeinn Proppé til Keine Frage-keppni. Á stórmennskubrjálæði okkar sömdum við rétt rúmlega 150 spurningar. Þetta reyndis líka vera móðir allra spurningakeppna – fjögurra klukkustunda maraþon…
Þetta voru fínar spurningar, margar hverjar. Engu að síður hefði ég hikað við að láta ýmsar af þeim bestu flakka í keppni sem tekin er jafn alvarlega af keppendum og t.d. framhaldsskólakeppnin. ístæðan er sú að skemmtilegustu spurningarnar þola sjaldnast grandskoðun.
Hugmyndin um spurningakeppni þar sem engar villur eða ónákvæmni er að finna, hljómar vel – en er óframkvæmanleg eða í það minnsta leiðinleg. Hundrað prósent skotheldar spurningar er t.d. spurningar á borð við: hvaða ár gerðist þetta? Númer hvað er þetta frumefni? Eða – hver er höfuðborgin í þessu landi? (Reyndar eru meira að segja þessar spurningar furðuoft ónákvæmar – þar sem alltaf skal koma í ljós að deilt sé um ártölin og viðkomandi landi taki sérstaklega fram í stjórnarskrá sinni að þar sé engin höfuðborg…)
Skemmtilegar spurningar innihalda oftar en ekki skemmtilegan fróðleik eða skringilegar viðbótarupplýsingar. En það sem er skemmtilegt eða skringilegt – er það yfirleitt vegna þess að einhver góður sagnamaður hefur dregið hlutina sterkum litum.
Upprunasagnir eru t.d. nánast alltaf umdeilanlegar. Það þýðir að með góðum (eða illum) vilja er hægt að vefengja nánast allar spurningar sem fela í sér vísbendingar á borð við að þetta eða hitt hafi verið fyrirmyndin að e-u. Önnur þumalputtaregla er sú að sama hversu sammála uppflettiritin kunna að vera – alltaf skal vera hægt að rífast um spurningar sem innihalda staðhæfingar um að einhver hafi gert e-ð fyrstur…
Auðvitað er það ergilegt þegar villur slæðast inn í spurningakeppni – en ef ég ætti að velja á milli sterilíseruðu 100% pottþéttu spurninganna eða hinna sem eru hæfilega nákvæmar og skemmtilegar í bland, þá væri ég ekki í miklum vandræðum að ákveða mig.