Unnum Tranmere í dag, 1:0. Vorum víst ferlega slappir og bara með einn framherja í klukkutíma. Þegar áhorfendurnir voru farnir að kalla eftir stjaksetningu þjálfarans var öðrum senter hent inná. Og tíu mínútum síðar kom markið.
Hin liðin í botnbaráttunni töpuðu. Við erum sem sagt ekki lengur á botninum og ekki nema 3-4 stigum frá því að komast úr fallsæti. Það næst þó varla í bráð – enda vinnum við aldrei á útivelli.
# # # # # # # # # # # # #
Á Deiglunni er pistill um þá meintu fúlmennsku Þjóðarbókhlöðunnar að takmarka aðgengi framhaldsskólanema að safninu yfir prófatíðina. Það vekur upp minningar.
Þegar Þjóðarbókhlaðan var tekin í notkun sat ég bæði í skólastjórn og skólanefnd MR. Viðbrögð skólans voru þau að skera við trog þá lesaðstöðu sem boðið hafði verið uppá í húsum skólans og sem nemendafélagið hafði barist fyrir í mörg ár. Úr því að búið væri að opna stórt bókasafn vestur á Melum, gætu grísirnir bara lesið þar…
Auðvitað kostaði það skólann pening að halda nokkrum húsa sinna opnum utan kennslutíma. Það þýddi yfirvinnugreiðslur til húsvarðarins og aukinn kostnaður við þrif.
Tvennt mælti hins vegar á móti þessari ráðstöfun. Annars vegar má færa fyrir því rök að skólum beri að sjá nemendum sínum fyrir vinnuaðstöðu jafnt á skólatíma sem á prófatímabilinu. Hins vegar má segja að það sé varla hægt að hugsa sér dýrari lausn á lesstofuskorti framhaldsskólanema en að koma þeim fyrir í landsbókasafni. Kostnaðurinn pr. nemanda er margfaldur á við það sem hægt væri að ná fram með öðrum leiðum – og það er slæm nýting á almannafé.
Þegar ég var í Edinborg, kom fyrir að ég þyrfti að nýta mér þjónustu Skoska þjóðarbókasafnsins. Þangað komst enginn inn án þess að geta rökstutt erindi sitt. Sá sem ætlaði að komast í að lesa nokkurra mánaða gömul dagblöð, var sendur á næsta almenningsbókasafn.
Bókavörðunum var ekki skemmt þegar þeir heyrðu að ég væri háskólanemi – enda eiga bókasöfn háskólanna að sjá um sitt fólk – en um leið og mér tókst að sýna fram á að ég væri á höttunum eftir bókum og gögnum sem ekki væri að finna annars staðar þá var þjónustan líka óaðfinnanleg.
Getur ekki hugsast að svipuð sjónarmið ráði ferðinni á bókhlöðunni – frekar en um að sé að ræða allsherjarsamsæri gegn unglingum?