Alveg var ég búinn að gleyma því að Sigríður Anna Þórðardóttir væri til. En nú er sem sagt búið að gera hana að sendiherra.
Byrjar þá gamalkunnur söngur um hversu mikið hneyksli það sé að gömlum pólitíkusum sé raðað í sendiherrastöður.
Því er ég reyndar ekki sammála.
Það eru vissulega mörg störf sem fv. pólitíkusum eru troðið í þar sem þeir geta verið til hreinnar óþurftar. Bankastjórastöður eða forstjórastöður ýmissa ríkisstofnanna eru góð dæmi um það. Og varðandi sendiherrastöðurnar, þá er fyllsta ástæða til að spyrja sig að því hvort þær séu ekki alltof margar og hvaða tilgangi þær hafi að gegna…
En ef við komumst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að halda úti herskara af sendiherrum, þá er vandséð að nokkur menntun eða starfsreynsla henti betur fyrir djobbið en einmitt að hafa verið atvinnustjórnmálamaður.
Hvað gera sendiherrar? Jú, þeir mæta í móttökur og veislur, spjalla við fólk og reyna að passa sig á að skandalisera ekki þó að nóg brennivín sé í boði. Er það nokkuð fleira? – Þetta er í raun ekki ósvipað því og að vera stjórnmálamaður – að frádregnum öllum völdum og raunverulegum verkefnum.
Á raun ættum við að hafa miklu fleiri fv. stjórnmálamenn í utanríkisþjónustunni. Það er líka góð leið til að tryggja að þeir haldi sig á mottunni – en allir þekkja hvað aðgerðalausir fyrrum pólitíkusar geta valdið miklum vandræðum.
# # # # # # # # # # # # #
Einföld spurning:
Eru ENGIN TAKMÖRK fyrir því hvað hægt er að blóðmjólka þetta skákeinvígi frá 1972?
Jújú, þetta var merkisviðburður og það allt – en einhvern veginn finnst manni að það hafi ekki liðið sá mánuður síðustu 3-4 árin án þess að gert sé eitthvað til að minnast þessa móts.