Frétt dagsins á Íslandi fór framhjá nánast öllum. Þar á meðal fjölmiðlafólki.
Hún snerist ekki um það hvort einhver hagfræðispekúlantinn teldi að ummæli einhvers annars væru góð eða slæm.
Frétt dagsins var heimsókn erlends gests sem nær enginn tók eftir. Vandana Shiva, einhver merkasti hugsuður samtímans á sviði umhverfismála og einn kunnasti gagnrýnandi hnattvæðingar á forsendum auðvaldsins var í Höfða í boði borgarstjóra, en enginn virtist kveikja á því.
Ef menn eru ófærir um að sjá lengra en hálftíma fram í tímann er þetta tómlæti vissulega skiljanlegt. Mér finnst það samt vera á pari við að missa af fyrstu tungllendingunni af því að maður vildi klára að leggja kapal.
Til að bíta höfuðið af skömminni, ákváðu þeir fjölmiðlar sem þó létu sjá sig í Höfða í dag að sleppa því að fjalla um komu indverska hugsuðarins. Þess í stað voru fréttapunktarnir taldir þessir:
i) Yoko Ono gefur Íslendingum pening
ii) Sonur Lennons er staddur á Íslandi
iii) Pósturinn gefur út frímerki með friðartyppinu
iv) Ólafur Ragnar tók á móti fínni keramikskál.
– stuna…
# # # # # # # # # # # # #
Framkvæmdafréttir:
ífram þensla – ekkert stopp á Mánagötunni! Á gær luku múrararnir sem steyptu upp húströppurnar störfum. Tröppurnar eru nú sallafínar.
Við stilltum okkur þó um að láta leggja í þær hita. Það hefði verið stórframkvæmd og kannski fullstór biti núna (það er kannski smákreppa í Norðurmýrinni þrátt fyrir allt).
Reyndar vildu múrararnir helst brjóta niður handriðið, sem er orðið fjári lúið. Vandinn er að slík framkvæmd verður ekki unnin svo glatt án þess að stórskadda húsið í útliti. Eitthvað segir mér nú að þetta handrið muni standa meðan við búum í húsinu.