Fyrsti desember

Er fyrsti desember ennþá frí­dagur í­ skólum? Það var alltaf frí­ á fullveldisdaginn þegar ég var pjakkur og ef ég man rétt hélst það upp grunn- og framhaldsskólann. Á háskólanum var staða fyrsta desember nokkuð óráðin. Liðið sem hékk í­ kringum stúdentapólití­kina var skikkað til að mæta á e-a samkomu, en aðrir lásu fyrir próf. Man ekki hvort dagurinn átti að heita almennur kennslu- og prófadagur eða ekki.

Fullveldisdagurinn hefur haft sérstaka stöðu í­ fjölskyldunni. Afi heitinn átti afmæli fyrsta desember og þetta var lí­ka brúðkaupsdagur þeirra ömmu. Á Neshaganum var alltaf kaffiboð af þessu tilefni á fyrsta des. Það var ekki vandræðalaus dagsetning, því­ í­ gestahópnum var slatti af kennurum og glás af skólabörnum sem voru á kafi í­ prófaundirbúningi.

Eftir að afi dó, hefur verið reynt að viðhalda þeirri hefð að fjölskyldan komi saman á fyrsta desember. Að þessu sinni var þó fallið frá því­, þar sem heilsufar gömlu konunnar býður ekki upp á slí­kt. Hún er rúmliggjandi og sterkum deyfandi lyfjum eftir að hafa fallið og beinbrotnað í­ haust. ístandið er mismunandi dag frá degi, en þegar við heimsóttum hana í­ gær upp í­ Borgarnes er ég ekki viss um að hún hafi almennilega tekið eftir okkur.

Þetta verður skrí­tinn fullveldisdagur án kaffiboðs með upprúlluðum pönnukökum.