Wimbledon & Mansfield (b)

Tvær fyrstu umferðirnar eru búnar í enska boltanum í BSP-deildinni (sem ég þyrfti helst að ná að íslenska – Blue Square Premium… gæti það verið Bláskjásdeildin?) Enn sem stendur er hins vegar ekki ljóst hversu margir leikir eru eftir. Chester City átti að hefja leik sem 24. lið með tuttugu og fimm stig í mínus fyrir fjárhagsvandræði, sukk og svínarí. Enska knattspyrnusambandið hefur hins vegar ekki enn veitt þeim keppnisleyfi og fyrstu tveimur leikjum félagsins hefur verið frestað. Ég á allt eins von á að liðin verði bara 23 í vetur.

Skemmst er frá því að segja að Luton er Manchester United þessarar deildar. Við erum langsigurstranglegastir fyrirfram, stærstir, ríkastir og með besta leikmannahópinn. Oxford er þá Chelsea samkvæmt sömu samlíkingu – þeir eru líklegastir til að slást við okkur um toppsætið, þótt auðvitað muni fleiri félög blanda sér í leikinn.

Fyrsti leikurinn var erfiður útileikur gegn Wimbledon – liðinu sem hinir kokkáluðu stuðningsmenn gamla Wimbledon stofnuðu þegar félaginu þeirra var stolið og það flutt til steinsteypueyðimerkurinnar Milton Keynes. Þetta var fyrsti leikur Wimbledon í deildinni og þeir hlutu því alltaf að selja sig dýrt. Luton mátti sætta sig við jafntefli eftir að hafa fengið dæmt á sig ódýrt víti undir lokin, 1:1.

Í kvöld var svo fyrsti heimaleikurinn, gegn Mansfield. Lið Mansfield er talið með þeim skaplegri og nefnt sem kandídat í umspil. Gestirnir komust yfir, en Luton svaraði með fjórum mörkum.

Fjögur stig í fyrstu tveimur leikjunum er ásættanlegur árangur. Aðalmálið er að tapa ekki of mörgum stigum í fyrstu umferðunum á meðan leikmenn eru enn að jafna sig á kúltúrsjokkinu. Næsta áfall verður svo þegar liðið hefur keppni í utandeildarbikarnum og getur þá degist á móti liðum sem eru enn neðar í píramídanum…