Ég færi ykkur góðar fréttir og vondar fréttir.
Góðu fréttirnar eru að Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Vondu fréttirnar eru að þetta gerðist fimmtán árum of seint.
Í tuttugu ár höfum við Íslendingar mátt búa við fjölmiðlamarkað þar sem nær öll blöð sem e-ð hefur kveðið að hafa verið í eigu hægrimanna og haldið sjónarmiðum þeirra á lofti. Stóran hluta þessa tíma hefur Morgunblaðið haft drottnunarstöðu og verið ritstýrt af mönnum sem staðið hafa fyrir sömu pólitík og forysta Sjálfstæðisflokksins. Þegar Davíð Oddsson studdi innrásina í Írak, stóðu Styrmir Gunnarsson og Ólafur Stephensen klappandi á hliðarlínunni.
Á sama tíma reyndi Morgunblaðið að leika það leikrit að væri frjálst og óháð – að tími hinna pólitísku blaða væri liðinn o.s.frv. Fjölmargt fólk á vinstravængnum – uppgefið á blaðaútgáfu liðinna áratuga – ákvað að spila með.
Síðasta einn og hálfa áratuginn má segja að hægrimenn hafi fengið að eiga hið pólitíska svið einir hér á landi. Skýringarnar á því eru einkum tvær: annars vegar ákváðu vinstrimenn að eyða tíu árum í að þrefa um innri skipulagsmál sín – hvort þeir ættu að vera í einum, tveimur eða þremur flokkum. Hins vegar leyfðu þeir hægrimönnum að ráða dagblaðamarkaðnum í þeirri sjálfsblekkingu að við værum í raun öll á sama báti.
Þess vegna er það svo grátlegt að Davíð Oddsson skuli nú fyrst vera að taka við Morgunblaðinu. Ef hann hefði verið ráðinn fyrir fimmtán árum væri þjóðfélagið líklega í mun betri stöðu í dag.