Bókin mín um sögu Knattspyrnufélagsins Fram hefur verið til sölu á skrifstofu félagsins frá því í vor og í fatahreinsuninni Úðafossi undanfarnar vikur. Þar sem líður að jólabókaflóði hefur hins vegar komið til tals að bókin mætti fást víðar.
Ég hafði samband við Bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum og Pennann/Eymundsson og kannaði hvort verslanirnar væru til í að taka bókina í umboðssölu. Undirtektir voru jákvæðar á báðum stöðum, en hjá Pennanum er svo mikið umstang og pappírsvinna sem fylgir þessu að ég á alveg eftir að sjá hvað ég nenni að gera. (Sjálfur hef ég enga peningalega hagsmuni af því að bókin seljist, en vill vitaskuld að félagið nái sem mestu upp í kostnað.)
Bókabúð Máls og menningar var með mun minna skrifræði og hefur nú fengið tíu eintök til sölu. Útsöluverðið skilst mér að verði það sama og hjá Fram, 5.900 krónur. Það þýðir að gallhörðum Frömurum er bent á að kaupa sínar bækur í Safamýrinni (þá fær félagið alla upphæðina), en fótafúnir miðbæjarbúar geta snarað sér inn í búðina á Laugaveginum.
Núna fer ég að verða eins og óþolandi bókarhöfundarnir sem mæta í sífellu í búðirnar, kanna hvort staflinn hafi minnkað og tuða við staffið yfir að þeirra verk sé ekki nógu sýnilegt…
Sé líka á Gegni að Borgarbókasafninu hefur þegar tekist að glata einu eintaka sinna af Frambókinni. Er það ekki gæðastimpill ef farið er að hnupla ritinu? Tek líka eftir því að ekkert bólar á því að Landsbókasafnið sé með bókina á skrá. Varla er Oddi að klikka á skylduskilunum?