Það er nú á mörkunum að maður nenni að setja sig inn í þetta nýja greiðslujöfnunarkerfi, en líklega verður maður að láta sig hafa það. Úr því að öll húsnæðislán eru sjálfkrafa flutt yfir í þetta kerfi, er víst betra að vita út á hvað það gengur.
Það vantar ekki umfjöllunina um hvort og þá hvernig þessi breyting muni gagnast fólki í greiðsluerfiðleikum. Minna hefur farið fyrir því að rakið sé hvaða máli (ef nokkru) þetta muni skipta fyrir þá sem ekki eru í slíkri stöðu.
Nú er Mánagötuheimilið með fremur lágar húsnæðisskuldir frá Íbúðalánasjóði. Þær hafa eitthvað hækkað í takt við verðbólguna, en ekkert sem veldur neinum vandræðum. Það virðast því tveir kostir í stöðunni:
i) að hringja í ÍLS og afþakka þessa breytingu.
ii) aðhafast ekkert, fá einhverja smálækkun á greiðslubyrðinni, en borga þá það sem nemum mismuninum inn á höfuðstólinn.
– Hvor valkosturinn er skynsamlegri?