Kevin Gallen (b)

Þeir sem fylgst hafa með fótbolta frá barnsaldri kannast við þá tilfinningu að uppgötva að jafnaldrar þeirra eru orðnir gjaldgengir leikmenn í meistaraflokki og standa sig að því að fagna marki einhvers gutta sem er jafnvel yngri en maður sjálfur. Það er líklega þá sem maður verður fullorðinn.

Síðar kemur næsta sjokk, þegar maður er 25-26 ára og áttar sig á því að jafnaldrarnir eru orðnir að „jöxlum“ eða „gömlum brýnum“. Það getur verið trámatísk reynsla. Pabbi hlær ennþá að því hvað mamma varð fúl þegar hún var þrítug og fékk hringingu þar sem hún var beðin um að fara aftur að æfa sund – með það sem gulrót að stefnt væri að þátttöku í heimsmeistaramóti öldunga…

Svo eru þau þáttaskil þegar maður stendur sig að því að heimta að jafnaldrarnir á fótboltavellinum verði sendir í límverksmiðjuna…

Kevin Gallen er jafngamall og ég. Raunar fimm mánuðum yngri. Samt er hann gamall. Gamall, gamall, gamall. Og seinn. (Tók ég fram að hann er gamall?)

Það er rétt svo að mig rámi í þann tíma þegar Kevin Gallen var talinn mesta efnið í enska boltanum. Hann var þá hjá QPR, en náði aldrei lengra. Lék fáránlega marga leiki á Loftus Road og er þar í miklum metum.

En núna erum við Kevin Gallen orðnir gamlir menn og hann lýkur ferlinum hjá Luton. Gamall og seinn… en klókur.

Í kvöld mættum við Rochdale á útivelli. Þeir yfirspiluðu okkur. Voru miklu, miklu betri. En við höfðum Kevin Gallen.

Gallen skoraði tvisvar og Luton er komið í aðra umferð. 18 þús. pund í kassann og helmingurinn af tekjunum af útileik gegn Rotherham í lok mánaðarins. Sko þann gamla!