Eitt það versta við að Luton sé fallið niður í utandeildina, er þegar við vinnum bikarleiki á móti ekki frægari liðum en Rochdale og Rotherham – en þurfum svo að lesa í blöðunum um „Giant-killing“ og „Cup-upset“. Það er sárt að horfa uppá.
Um helgina tekur svo við næsta niðurlæging. Þá mætir Luton í fyrsta sinn til leiks í The FA Trophy, sem er utandeildarbikarkeppni með fjölda örliða.
Þetta eru 64-liða úrslit og ljóst er að við höfum ekkert við það að gera að fara langt í þessari keppni til þess eins að auka meiðslahættu og riðla leikjaplaninu. En á móti kemur að maður vill heldur ekki tapa fyrir hvaða labbakútum sem er.
Reyndar var drátturinn nokkuð góður upp á þetta að gera. Andstæðingarnir eru Cambridge á útivelli. Það er alveg félagslega viðurkennt að tapa fyrir þeim og losna þannig úr þessu ólánsmóti. – Hitt er svo aftur gilt sjónarmið að okkur hefur tilfinnanlega vantað stöðugleika upp á síðkastið og það væri því gott að ná meira en einum sigurleik í röð upp á framhaldið…
Niðurstaða: vonandi vinnum við eða töpum á morgun. Verstu mögulegu úrslit væru jafntefli og nýr leikur.