Netlýðræði = koss dauðans

Netlýðræði, sú hugmynd að leiðin til að útkljá mikilvæg og viðkvæm deiluefni með kosningum á netinu, er vond.

Ekki vond á skalanum: best að sleppa því að lesa tvo síðustu kaflana í kennslubókinni – þeir koma fjandakornið ekki til prófs.

Heldur frekar vond á skalanum: til hvers að eyða peningum í að kaupa flöskuvatn á ferðalögum um Suðaustur Asíu…

Síðsumars var í eitt skipti fyrir öll sýnt fram á til hvaða hörmunga netlýðræði myndi leiða.

The Rolling Stone Magazine efndi til kosningar – hvaða tónlistarmann eða hljómsveit menn myndu helst vilja sjá tekinn inn í Frægðarhöll rokksins.

Á topp 15-listanum voru margar miklar kempur (nöfn sem mann rekur í rogastans yfir að séu ekki nú þegar á listanum). Þannig hefur Tom Waits enn ekki fengið náð fyrir augum nefndarinnar. Sonic Youth liggur óbætt hjá garði. The Smiths hafa ekki komist í hinn fríða flokk. Íslandsvinirnir í Jethro Tull ekki heldur. Ekki Lou Reed eða Deep Purple. Einhverra hluta vegna eru Beastie Boys ekki á blaði og eflaust þykir einhverjum rokknjörðum það slæmt að Rush hafi ekki fengið heiðurinn (sama er mér). Hér eru bara nokkur nöfn nefnd.

En hver skyldi svo hafa sigrað í kosningunni? Hvaða tónlistarmaður hefur öðrum fremur verið svikinn um þá viðurkenningu sem hann á svo innilega skilið? Hver er vanmetnastur allra?

…jú Weird Al Yankovic.

Lýðurinn valdi Barrabas. I rest my case.