Áfall fyrir knattspyrnuíþróttina

Áttundi janúar 2010 er kominn í hóp svörtustu daga knattspyrnusögunnar. Aðskilnaðarsinnar í héraðinu Cabinda (þar sem álíka margir búa og á Íslandi) skutu á rútulest landsliðs Tógó. Nokkrir eru látnir og nokkrir til viðbótar særðir eftir að hryðjuverkamenn létu vélbyssuskothríð rigna yfir bílana um langa stund.

Þetta er síst minna áfall fyrir íþróttirnar en hryðjuverkin á Ólympíuleikunum 1972. Þetta mun þó varla vekja sömu athyglina – enda Afríkukeppnin í knattspyrnu ekki jafnfyrirferðarmikil og Ólympíuleikar. (Auk þess fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að meta minna líf þeldökkra þriðjaheimsbúa en fólks frá Vesturlöndum.)

Fyrir Angóla er þetta reiðarslag. Landið hafði kostað gríðarmiklu til svo að mótið færi vel fram. Það átti öðrum þræði að vera sönnun þess að friður og stöðugleiki sé kominn á í landinu eftir áralanga styrjöld.

Lið Tógó er vitaskuld á heimleið og ekki útilokað að fleiri lið fylgi á eftir. Keppnin verður haldin eftir sem áður, en í skugga hryðjuverksins. Þetta eru ömurlegar fregnir.