Sú hugmynd að breyta gömlu heilsuverndarstöðinni í hótel er gengin aftur. Ekki veit ég hverjir eigendur hússins eru nú, en þeir eiga augljóslega greiða leið á síður Fréttablaðsins. Í dag birtist mikil frétt um hversu frábært þetta hótelverkefni sé og hversu mikilvægt það sé að knýja það í gegn með miklum hraða.
Ekki eru margar vikur frá því að Fréttablaðið skrifaði nokkrar fréttir í röð um hversu æðisleg áform væru uppi um að stofna einkarekinn grunnskóla í húsinu. Skipuleggjendur þess verkefnis vildu einmitt líka fá flýtiafgreiðslu í kerfinu. Seinna kom svo í ljós að skólastofnunin átti öllu lengra í land en stofnendurnir vildu vera láta.
Heilsuverndarstöðin er eitt af fimm flottustu húsunum í Reykjavík. Fyrir nokkrum árum stóð til að setja upp mikla sýningu í byggingunni um sögu heilbrigðismála í Reykjavík. Ég var fenginn til að koma að verkinu sem fulltrúi Orkuveitunnar og skoðaði þá húsið hátt og lágt að innan. Þar uppgötvaði ég að byggingin er ekki síður glæsileg að innan en utan.
Ef Heilsuverndarstöðinni verður breytt í hótel ætla ég rétt að vona að menn beri gæfu til að halda innviðum hússins með mest er unnt í stað þess að sópa öllu innan úr því. Því miður er tónninn í aðstandendum framkvæmdarinnar í Fbl. í dag nokkuð á hinn veginn. Þar er áherslan lögð á framkvæmdahraða og að engan tíma megi missa að senda iðnaðarmenn á svæðið með kúbein. Slíkt yrði mikið tjón.