Skrápur

Íslensk stjórnmálastétt er að verða sífellt hörundsárari. Ef almennur stjórnarliði hnýtir í samstarfsflokkinn, fara allir á háa c-ið og fjölmiðlarnir kalla stjórnmálafræðing í viðtal til að ræða það hvort stjórnin sé ekki að falla.

Það er því hressandi að rifja upp þann tíma þegar menn höfðu aðeins meiri skráp í pólitíkinni. Árið 1978 – þremur vikum eftir að ríkisstjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknar tók við völdum, skrifaði Sighvatur Björgvinsson þessa grein í Alþýðublaðið um annan samstarfsflokkinn.

Yfirskriftin var: „Alþýðubandalagið. Flokkur eða fyrirbæri?“

Þar sagði m.a.: „Alþýðubandalagið er þvert á móti kálhaus. Þú flysjar utan afþví hvert sértrúarkálblaðið á fætur öðru unz allt er búið og ekkert eftir. Bara afskrælingar og flus. Þjóðviljaklíkukálblaðið. Sósíalistafélagsflusið. Þjóðernisrómantíkurafskrælingurinn. Menningarhjálpræðisherinn. Stóriðjuvarnarliðið ásamt andframfarafélaginu. Keflavikurgönguliðið ásamt hverskonar öðrum labb-röbburum og pólitiskum heilagsandahoppurum. Auðvitað eru svo innan um hópar fólks með hefðbundnari stjórnmálaskoðanir, sem eru í alvöru stjórnmálabaráttu og telja sig vera i alvöru flokki. Mikilvægastur þeirra er án efa verkalýðsleiðtogahópur Alþýðubandalagsins. En menn skyldu minnast þess, að t.d. sá hópur er aöeins einn af mörgum blöðum i kálhaus Alþýðubandalagsins og því miður ekki áhrifameiri en margir hópar heilagsandahopparanna.“

Annað í greininni er eftir þessu.

Svo eru menn að æsa sig yfir því í dag þótt einn og einn pólitíkus setji inn fésbókarstatus sem orkað getur tvímælis. Heimur versnandi fer.