Í dag barst með póstinum (nokkrum dögum of seint vegna öskufalls) bókapakki frá Danmörku með nokkrum teiknimyndasögum sem vantaði í safnið. Úff, hvað maður sér það núna á Visa-kortinu hversu skynsamlegt það hefði verið að taka þessi innkaup 2006 en ekki 2010.
Nema hvað – fyrsta bókin var lesin upp til agna í kvöld. Það var jafnframt önnur þeirra tveggja sem ég batt minnstar vonir við í upphafi. Það voru sem sagt tvær nýlegar Lukku Láka-bækur (frá 1995 og 1998): Belle Starr og Marcel Dalton. Þær eru nr. 106 og 109 á frummálinu (af 115).
Fyrir lesendur þessa bloggs sem geta stautað sig í gegnum frönsku, má lesa aðeins meira hér og hér. (Ath. franskan mín er jafnvel enn verri en þó mætti ætla af þessari síður.)
Sagan um Belle Starr hefði getað orðið efniviður í stórgóða Lukku Láka-bók. Glæpadrottningin á sér magnaða sögu, sem listamenn hafa á síðustu árum fundið sér ærinn efnivið í. Þess í stað er dregin upp fáránleg Al Capon-mynd af henni sem kerlingunni sem stýrir hannyrðaklúbbi kirkjunnar út á við en stjórnar bankaránum þess á milli.
Styrkur gömlu Lukku Láka-bókanna voru hinar djúpu og beittu sögulegu vísanir. Ekkert slíkt er sjáanlegt í þessari bók. Í staðinn er gripið til þess að neim-droppa með því að kynna allar frægustu aukapersónur bókaflokksins til sögunnar: Daltónarnir, Billi barnungi, foringi riddaraliðssveitarinnar, Mamma-Dagga og Jesse James… öllu er troðið inn í fléttuna sem er frekar þunn. Stór hluti bókarinnar gerist í réttarsal, en hugrenningartengslin við Rangláta dómarann eru henni verulega í óhag.
Samt held ég að Þorsteini Thorarenssyni hefði tekist að gera þetta að góðri bók…