Ég fékk símtal frá blaðamanni DV, sem hafði lesið fésbókarstatus hjá mér. Afraksturinn má sjá hér.
Af fréttinni mætti kannski ætla að ég sé eitthvað ósáttur við að hafa fengið valgreiðslukröfu frá Besta flokknum eða að mér þætti þessi fjáröflunaraðferð óeðlileg. Það er fjarri lagi. Mér finnst ekkert athugavert við að stjórnmálaflokkar eða félagasamtök sendi skeyti tvist og bast til að bjóða fólki að styðja sig. Til dæmis er það miklu betra að flokkar séu fjármagnaðir svona en með sníkjum frá fyrirtækjum.
Ástæða þess að ég fór að velta þessu fyrir mér á fésbókinni er sú að fyrir nokkrum misserum var ég stjórn félags sem íhugaði að fara í svona fjáröflun. Það var hins vegar metið sem svo á þeim tíma að kostnaðurinn við þessa söfnunaraðferð væri of mikill, nema að sent væri á þröngt skilgreindan hóp sem væri mjög líklegur til að borga. Þess vegna þótti mér fróðlegt að vita hvort kostnaðurinn við valgreiðslur hafi minnkað eða hvort Besti flokkurinn hefði skilgreint markhóp með einhverjum hætti.
Ég er sannfærður um að við eigum eftir að sjá þessa innheimtuaðferð snaraukast á næstu árum – en um leið á hún eftir að verða ómarkvissari.
Eins og staðan er í dag, fæ ég kannski 1-2 valgreiðslur á mánuði í heimabankann minn. Þær birtast innan um aðra reikninga: félagsgjöld, lánaafborganir o.s.frv. Þar sem þetta eru fáir seðlar, eru ágætar líkur á að maður samþykki þá með hinum reikningunum (munar ekki um kepp í sláturtíð). Ég er hins vegar viss um að þegar velflest líknarsamtök, stjórnmálahreyfingar og áhugamannafélög verða farin að kveikja á þessari leið – þá munu bankarnir annað hvort snarhækka þóknun sína eða breyta uppröðuninni þannig að þessir seðlar birtist ekki á sama stað og „alvöru“ reikningar.
Gaman væri að fá upplýsingar um málið frá e-m sem þekkir til.