Fótboltasaga mín 71/100: Gestirnir

2. janúar 1985. Reykjavíkurúrvalið 1 : Luton 3

Hvers vegna held ég með Luton? Tjah, þetta var liðið sem ég valdi þegar ég var átta ára við dramatískar aðstæður (meira um það síðar). En maður þarf samt ekki að kvænast fyrstu kærustunni! Það er fullt af dæmum um að menn hafi valið illa í byrjun og skipt um skoðun síðar. Hvers vegna beit ég í mig að halda tryggð við félag sem ég valdi barnungur í bríaríi – hvers vegna skipti ég ekki bara? Jú, það var út af leiknum á gervigrasinu 1985.

Síðla hausts 1984 eignuðust Reykvíkingar sinn fyrsta gervigrasvöll á gömlu Hallarflötinni í Laugardal. Þá þegar fluttu öll stóru Reykjavíkurliðin flestar æfingar sínar í Laugardalinn og ég, níu ára gamall pattinn með nýuppgötvaðan fótboltaáhugann sat uppi með neðrideildarklúbba, fyrsta flokk og firmalið á hverfisvellinum.

En það var aldrei haldinn neinn formlegur vígsluleikur. Það var bara farið að æfa, svo einhverjum datt í hug að sniðugt væri að halda almennilegan leik til að taka gervigrasið formlega í notkun. Og færið gafst í seinni hluta janúar þegar fáránlegar veðuraðstæður sköpuðust í Evrópu.

Það var skítakuldi á meginlandinu og í Bretlandi og öllum leikjum frestað um nokkurt skeið. Nema á Íslandi var bongóblíða og fólk nánast úti á bolnum að mála pallinn. (Ekki slá þessu upp á netinu, augljóslega ýki ég til að styrkja frásögnina.) Svo Halldór Einarsson, Henson – ákveður að slá á þráðinn og bjóða einhverju liðinu í heimsókn.

Luton var efstudeildarlið og nærri stóru Lundúnaflugvöllunum, svo þeir slógu til. Ákvörðunin var tekin fáránlega hratt. Dagblöðin fluttu fréttirnar með sólarhringsfyrirvara: Luton leikur á gervigrasinu á morgun!

Flugleiðir buðu upp á ókeypis flug og gistingu var reddað á Hóteli Esju. Liðinu var flogið til Íslands síðdegis á föstudegi. Hitaveitan skrúfaði upp í kyndingunni á gervigrasinu og bræddi klakann á vellinum. Leikurinn var settur niður á laugardegi klukkan þrjú og á mánudagsmorgun flugu Luton-menn heim.

Það er ekki hægt að lýsa viðbrögðum mínum við þessum fréttum. Ég var níu ára gamall og eini strákurinn í öllum Melaskólanum sem hélt með smáliðinu Luton og skyndilega kvisaðist út á föstudegi að liðið mitt væri að koma til Íslands daginn eftir… Hvernig dílar maður við þannig upplýsingar?

Það tók mig hálfan daginn að trúa fréttunum. (Mamma og pabbi voru kommúnistar sem keyptu ekki Moggann og Þjóðviljinn hafði ekki flutt fréttina um morguninn.) En eftir að upplýsingarnar síuðust inn fór ég að láta dæluna ganga um alla leikmenn Luton. Allir vildu fræðast og vita hverju væri við að búast þegar ensku hálfguðirnir mættu daginn eftir.

Ég tók einn strætó á völlinn. Það þótti fullkomlega eðlilegt hjá níu ára börnum árið 1985 og ég er ekki einu sinni viss um að mamma og pabbi hafi fattað að það væri einhver sérstakur fótboltaleikur í gangi. Og það var sjittlóds af fólki. Ég myndi giska á 3.000 áhorfendur. Nokkuð sem við sjáum ekki í dag nema á bikarúrslitaleikjum og þetta var kynnt með sólarhringsfyrirvara.

Andstæðingarnir voru Reykjavíkurúrvalið… sem var furðulegur samtíningur með tveimur Frömurum, tveimur Völsurum,tveimur  KR-ingum og tveimur Víkingum – en þremur Þrótturum. Hvenær mun það gerast aftur?

Nema hvað – að morgni leikdags kikkaði íslenski veturinn inn. Völlurinn var að sönnu auður, en það var kalt. Fokkíng kalt. Við erum að tala um tveggja stafa tölu í mínus kalt. Og allir á vellinum voru að deyja úr kulda. Allir áhorfendurnir voru að frjósa. Reykvísku andstæðingar voru í vettlingum og föðurlandi, en ekki gestirnir – enda snerist umfjöllun Moggans um leikinn einkum um að berlæraðir Englendingar hefðu straujað Íslendingana.

Og þeir straujuðu okkur. Gunnar Gíslason minnkaði muninn í 2:1 um miðjan leik, en sigur Luton var aldrei í hættu með mögum frá Breacker, Brian Stein og Harford. Þeir hefðu svo auðveldlega getað skorað slatta í viðbót.

Ég sveif á skýi meðan á leiknum stóð. Eftir leik var ég of starströkk til að fara um og safna eiginhandararitunum, öfugt við það sem gerðist ári síðar þegar Watford kom í heimsókn. Ég man ekki hvort ég var þá í lúðahópnum sem hljóp og fékk áritun frá Luther Blissett eða hvort ég lét John Barnes pára nafnið sitt. Eitthvað segir mér að það hafi verið það fyrrnefnda…

Fokkit. Ég á enga eiginhandaráritun til að staðfesta leikinn í janúar 1985, en mér er alveg sama. Bara minningin um að mæta á völlinn og geta farið í skólann mánudaginn eftir og rætt sérhvert smáatriði, sérhvern leikmann – það dugði mér. C´mon Luton! C´mon Luton!

(Mörk Reykjavíkurúrvalsins: Gunnar Gíslason. Mörk Luton: Breacker, Stein, Harford)