17. febrúar 2006. Luton 3 : Reading 2
Þegar Luton er í beinni útsendingu, mæti ég á Ölver. Starfsfólkið reiknar með mér og gantast með það hvort ég verði einn að horfa eða hvort einhverjir vinir mínir aumki sig yfir mig og sláist í hópinn. Stundum fæ ég að horfa á stóra tjaldinu í aðalsalnum. Stundum sit ég í hliðarsalnum. Og stundum er sérherbergi fyrir aftan, þar sem hægt er að sitja í hægindastól og glápa.
Eftir að eyðimerkurganga okkar í neðrideildum og utandeildum hófst, hef ég sjaldnast þurft að hafa miklar áhyggjur af bargestum sem mættir eru til að styðja hitt liðið. Sú var ekki alltaf raunin á meðan Luton var í næstefstu deild.
Þegar Reading kom í heimsókn á Kenilworth Road eitt föstudagskvöldið í febrúar 2006, var fjölmennt á Ölveri. Reading var yfirburðalið þennan veturinn og lauk keppni með 106 stig. Þegar þarna var komið sögu var liðið á gríðarlegri siglingu og taplaust 33 leiki í röð og átti möguleika á að slá eitthvað fáránlega gamalt met Liverpool ef ég man rétt. Þetta var fyrsti sjónvarpsleikur Reading um nokkra hríð og Brynjar Björn Gunnarsson og Ívar Ingimarsson voru báðir í byrjunarliði. Vinir þeirra og fjölskylda ákváðu því að fjölmenna til að sjá frægan sigur.
Luton hafði ekki að miklu að keppa. Umspilssætið eiginlega utan seilingar (við enduðum í tíunda sæti) og aðalmarkmiðið að fá ekki á baukinn gegn meistaraefnunum.
Ekki byrjaði það vel. Kevin Doyle skoraði eftir tuttugu sekúndur og maður sá fram á 4-5 marka tap. En í stað þess að gestirnir gengu á lagið, tók Luton öll völd á vellinum. Stuðningsmannasíða Reading viðurkenndi það fúslega eftir leikinn. Í fyrsta sinn þetta árið hefði lið þeirra verið sundurspilað á miðjunni.
Rowan Vine skoraði tvívegis um miðjan fyrri hálfleikinn. Luton-aðdáendur fá blik í augun þegar Vine er nefndur. Hann var ofsalega flinkur marksækinn miðjumaður, sem seldur var til Birmingham fyrir 2,5 milljónir punda árið eftir. Sú upphæð átti enn eftir að hækka eftir að Birmingham komst í úrvalsdeild, svo líklega má telja hann dýrasta leikmanninn sem Luton hefur selt ásamt Curtis Davies.
Hjá Birmingham og síðar QPR náði Vine aldrei miklu flugi. Síðustu árin hefur hann reynt að fóta sig í Skotlandi og virðist nú í vor hafa verið látinn fara frá Greenock Morton, sem er sorglegt fyrir þó ekki nema 32 ára leikmann. (Þessu tengt sé ég að Guðgeir Leifsson og Atli Þór Héðinsson virðast báðir hafa spilað fyrir Morton á áttunda áratugnum. Skemmtilegt!)
Það var hálfskringilegt að fagna, klappa og stappa í herbergi fullu af svekktum íslenskum Reading-stuðningsmönnum sem kvöddu drauminn um óbrjótandi met. Ég lét mig þó hafa það.
Í seinni hálfleiknum bætti Dean Morgan við þriðja markinu. Hann var kornungur framherji/kantmaður sem hafði einmitt komið til Luton frá Reading. Samkvæmt Wikipediunni er Morgan, sem hefur varið megnið af ferlinum í utandeildinni, nýlega orðinn landsliðsmaður. Í ljós hefur komið að amma hans er frá Montserrat. Landslið þessa litla eyríkis vakti athygli árið 2002 þegar það, sem botnlið styrkleikalista FIFA mætti næstneðsta landsliðinu, Bhutan. Montserrat tapaði 4:0.
Eftir þriðja markið var sigurinn í höfn, þótt Doyle næði reyndar að klóra í bakkann með marki á lokamínútunni. Luton gat leyft sér heiðursskiptingar og Morgan fór útaf fyrir Enoch Showunmi. Enoch var költ-hetjan í liðinu (öll lið þurfa költ-hetjur). Hann gekk til liðs við Luton 21 árs gamall, sem var magnað í ljósi þess að hann hafði ekki áður verið á mála hjá fótboltaliði. Hann var uppgötvaður í einhverjum skemmtigarði þar sem hann spilaði ásamt vinum sínum og boðinn samningur.
Á þeim tímapunkti mátti Luton ekki semja við leikmenn vegna greiðslustöðvunar og leikmannahópurinn var ansi gisinn. Þar sem Enoch var ekki skráður atvinnuknattspyrnumaður mátti hins vegar semja við hann sem áhugamann. Meðan á leikmannakaupsbanninu stóð fékk hann aðeins greiddan útlagðan kostnað og er fyrir vikið líklega síðasti áhugamaðurinn til að leika í ensku deildarkeppninni!
Um tíma var Enoch á mála hjá Leeds, en virðist vera án liðs sem stendur. Í millitíðinni náði hann nokkrum leikjum hjá Falkirk og stuðningsmennirnir sömdu um hann lag. Það er hvorki hnyttið né háttvíst.
Enoch kom lítið við sögu. Flautað var til leiksloka og ég tók við hamingjuóskum Readings-stuðningsmannana á leiðinni út. Gott ef mamma Ívars Ingimarssonar var ekki í hópnum. – Löngu síðar átti Ívar eftir að tengjast Lutontvíæringnum með óvenjulegum hætti þegar einn okkar týndi tösku á rútustöð í Reading. Hann hafði samband við rútufyrirtækið upp á hvernig nálgast mætti töskuskjattann en fékk dræmar undirtektir starfsmanna, sem nenntu ekkert að hreyfa sig í málinu. Þar til að í ljós kom að töskunni ætti að koma til fótboltamannsins Ívars Ingimarssonar – þá slógust rútustarfsmennirnir um að fá að hjálpa kunningjum hetjunnar í von um að hitta hann sjálfan.
Einn míns liðs trítlaði ég svo aftur heim í Norðurmýri, væntanlega með viðkomu í einhverri sjoppunni til að kaupa lakkrístrítla fyrir Steinunni sem lá með flensu. Liverpool-metið hundrað ára stóð óhaggað.
(Mörk Luton: Rowan Vine 2, Dean Morgan. Mörk Reading: Kevin Doyle 2)