5. september 1992. Fram 2 : Víkingur 1
Ég er ekki viss um að það að hafa brennandi áhuga á fótbolta geri mann endilega að betri manneskju. Fátt nærir þórðargleði meira en úrslit fótboltaleikja. Jafnvel þótt liðið manns tapi má einatt sækja nokkra huggun í enn meiri ófarir annarra.
Árið 1992 var mikið vonbrigðaár hjá Frömurum. Að missa titilinn til Víkinga sumarið áður var í hugum allra slys og það meira að segja pínkulítið krúttlegt slys. Þetta ár var Fram með langsterkasta mannskapinn á pappírunum. Skagamenn höfðu reyndar pakkað saman 2. deildinni, en enginn trúði því í raun og veru að nýliðar gætu orðið meistarar. KR-liðið var mistækt.
Það var líka nýr þjálfari. Pétur Ormslev tók við af Ásgeiri Elíassyni. Það var einhvern veginn allt svo rétt við það að fyrirliðinn hoppaði beint í stól þjálfarans. Ójá, þetta gæti ekki endað í tárum!
Við vorum á toppnum eftir sjö umferðir, reyndar á markatölu. Valdimar Kristófersson skoraði eins og vindurinn og Ingólfur Ingólfsson átti hverja snilldarsendinguna á fætur annarri. Í jafnteflisleik gegn Víkingum í áttundu umferð skoraði Valdimar sitt áttunda mark. Einhver fábjáninn hefur þá væntanlega farið að rifja upp markametið og jinxað allt saman. Hann hafði skorað níu mörk í mótslok.
Víkingsleikurinn í níundu umferðinni varð líka lokaleikur Baldurs Bjarnasonar í deildinni með Fram. Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar tilkynnt var um miðjan júlí að hann væri genginn til liðs við Fylkismenn í 2. deildinni. Þessar fréttir grétu allir, en fæsta óraði þó fyrir því hve afdrifaríkt brotthvarf Baldurs var í raun.
Við unnum FH með heppni og sátum tveimur stigum á eftir ÍA með 19 stig þegar mótið var hálfnað. Við tóku sex tapleikir í röð í deild og bikar. Mótið var orðið að martröð.
En hvað mátti þá segja um Íslandsmeistarana? Sjaldan hefur lið hrunið jafn hratt og Víkingsliðið eftir 1991. Ef frá er talin furðugóð frammistaða gegn CSKA Moskvu í Evrópukeppninni, gekk allt á afturfótunum hjá Fossvogsliðinu og fljótlega fóru menn að velta því fyrir sér hvort Víkingar myndu bætast í afar fámennan hóp knattspyrnusögunnar yfir meistara sem fallið hafa árið eftir.
Það var ekki fyrr en 1993 sem Víkingar féllu, en þá raunar með glæsibrag. Og 1992 gátu þeir gulltryggt sig með jafntefli á Laugardalsvelli í næstsíðustu umferð. Leikurinn féll í skuggann af viðureign Skagamanna og FH-inga á sama tíma, þar sem Akranes varð Íslandsmeistari. Samt varð ég undrandi að sjá Íslenska knattspyrnu Víðis Sigurðssonar staðhæfa að áhorfendur hefðu aðeins verið 275 í Laugardalnum. DV og Mogginn birtu á sínum tíma töluna 415.
Fram hafði ekki að neinu að keppa. Víkingar hlustuðu hins vegar taugaóstyrkir á lýsingarnar frá öðrum völlum í vasadiskóunum sínum. Pétur Arnþórsson kom Fram yfir á upphafsmínútunum og við tók stíf en lánleysisleg sókn Víkinga. Gummi Steins var enn í Víkingsbúningnum og misnotaði nokkur góð færi. Við í stúkunni skemmtum okkur dável. Ekki þar fyrir að okkur væri neitt keppikefli að fella Víkinga. Hin liðin í fallbaráttunni voru Breiðablik, KA og ÍBV. Það voru því augljósir kostir varðandi ferðakostnað að losna við sveitavarginn. Víkingarnir lágu hins vegar svo vel við höggi.
Helgi Sig komst í dauðafæri en Birkir varði meistaralega. Við fengum svo sem einhver opin marktækifæri líka. Tíminn var við það að renna út og Víkingar að dragast enn dýpra niður í fallbaráttuna, en þá kom Björn Bjartmarz til sögunnar – maðurinn sem tryggt hafði Víkingum meistaratitilinn árið áður. Björn kom inn sem varamaður undir lokinn og 1-2 mínútum fyrir leikslok átti hann skalla í bláhornið. 1:1, Víkingar öruggir um sæti sitt og leikmenn og stuðningsmenn ærðust.
Frammegin í stúkunni fannst okkur berin súr og muldruðum eitthvað um þessi leikur hefði nú engu máli skipt og skárra væri að hafa Reykvíkinga en t.d. Eyjamenn í deildinni. Víkingar voru enn að faðmast og dansa þegar Framararnir tóku miðjuna, lögðu í sókn og örskömmu síðar lá knötturinn í Víkingsmarkinu. Steinar Guðgeirsson náði að smeygja boltanum inn á Anton Björn sem skoraði.
Ó, hvað við hlógum! Við fögnuðum eins og meistarar. Bara af því að við gátum það og af því hvað það var skemmtilegt að sjá lúpulega andstæðinga sem búið var að tantalísera svona andstyggilega.
Hagstæð úrslit á öðrum stöðum gerðu það raunar að verkum að Víkingarnir höfðu örlög sín enn í eigin höndum. Þeir unnu Blika í lokaumferðinni og héngu uppi. En ef karma virkar á ég eftir að súpa seyðið af drýslahlátrinum eftir mark Tona.
(Mörk Fram: Pétur Arnþórsson, Anton Björn Markússon. Mark Víkings: Björn Bjartmarz)