Fótboltasaga mín 77/100: Kvislingarnir

16. júlí 1994. Svíþjóð 4 : Búlgaría 0

Búlgaría lauk keppni á HM í Mexíkó án sigurs, þrátt fyrir að vera í riðli með líttþekktu liði Suður-Kóreu. Það var ekki óvænt. Þetta var fimmta úrslitakeppni Búlgara án sigurs. Þegar liðið komst á HM í Bandaríkjunum, eftir að hafa slegið Frakka út úr forkeppninni á dramatískan hátt, var markmiðið því bara eitt: að landa sigri.

Ekki byrjaði það vel. Nígeríumenn pökkuðu Búlgörum saman í fyrsta leik, 3:0. Strax í næstu umferð fór landið hins vegar að rísa. Afleitt grískt lið tapaði 4:0 fyrir Búlgörum. Stoichkov skoraði tvisvar. Öllum að óvörum tókst búlgarska liðinu svo að vinna Argentínu í lokaleik riðilsins, 2:0. Aftur skoraði Stoichkov tvisvar.

Ég var sökker fyrir Búlgörum – einkum útaf Stoichkov, sem kemst léttilega á alla topp-10 lista yfir mestu töffara fótboltasögunnar.

Búlgaría mætti Mexíkó í einu viðureign sextán liða úrslitanna sem fór í vítakeppni. Stoichkov skoraði í leiknum og ætlaði greinilega að taka síðasta vítið og tryggja sigurinn. Það kom ekki til þess. Mexíkóarnir fóru á taugum og skoruðu bara úr einni spyrnu.

Og þar með töldu flestir að ævintýrinu myndi ljúka. Heimsmeistarar Þjóðverja voru næstu andstæðingar. Helvítis Þjóðverjarnir! Það var lið sem mér var meinilla við. Hver leiðindagaurinn öðrum verri. Matthäus, Völler, Klinsmann… (Hrollur!)

Búlgarir mættu til leiks að því er virtist með þá áætlun eina að halda hreinu og veðja á annan vítakeppnissigur. Þau áform virtust ætla að fara fyrir lítið þegar Matthäus skoraði í byrjun seinni hálfleiks – en sambland af snilld Stoichkovs og kæruleysi Þjóðverja gaf Búlgörum tvö mörk þegar um kortér var eftir. Ó, hvað við hlógum!

Búlgaría var komin í undanúrslit HM, en því miður virtust leikmennirnir mettir eftir sigurinn á Þýskalandi. Þjálfarinn leyfði þeim að slá upp heljarinnar partýi og myndir af blindfullum leikmönnum í heitum pottum hótelsins fóru út um allt. Þetta var synd vegna þess að á góðum degi hefði lið þeirra alveg getað átt í fullu tré við Ítali. Undanúrslitaleikurinn tapaðist 2:1, en Stoichkov skoraði enn og aftur.

Þessi sex mörk Stoichkovs dugðu honum þó ekki í toppsæti markaskorara. Rússinn Oleg Salenko var með jafnmörg mörk, þar af fimm á móti Kamerún, þrátt fyrir að rússneska liðið hefði ekki einu sinni komist uppúr riðlakeppninni. Skrítnar reglur sögðu að Salenko hlyti gullskóinn útá færri spilaðar mínútur – eins og það eigi að vera keppikefli á stórmóti að spila færri mínútur í staðinn fyrir fleiri! En Stoichkov átti þó einn séns enn: þriðja sætis leikinn gegn Svíum.

Bronsverðlaunaleikir á stórmótum eru oftast nær antíklímax, en þessi var óvenjuslæmur. Búlgarska liðið virtist einungis mætt til leiks í því skyni að senda knöttinn fram á Stoichkov í þeirri von að hann potaði inn hinu dýrmæta sjöunda marki. Enginn annar virtist hafa skotleyfi í liðinu þennan daginn. Svíarnir áttuðu sig á þessu og áttu ekki í miklum vandræðum með að halda honum niðri í spili úti á vellinum. Þá skipti búlgarska liðið um leikaðferð og einbeitti sér að því að reyna að fiska aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Það tókst ekki mikið betur.

En það sem furðulegra var – búlgarska vörnin sem verið hafði svo þétt í öðrum leikjum útsláttakeppninnar, var úti á þekju. Svíarnir áttu engan stjörnuleik en virtust skora að vild. Staðan í hálfleik var 4:0.

Í dag er það útbreidd skoðun að leiknum hafi verið riggað. Að einhverjir leikmenn búlgarska liðsins hafi þegið mútur fyrir að tapa leiknum með miklum mun. Í bók sinni The Fix, um hagræðingu fótboltaúrslita, telur Declan Hill upp atriði sem einkenna leiki þar sem brögð eru í tafli. Hann bendir til dæmis á að í leikjum þar sem úrslitin eru fyrirfram ákveðin, sé algengt að mörkin séu skoruð snemma og leikirnir síðan drepnir niður. Það á ágætlega við um þennan gallsúra bronsleik.

Það eru einkum sænskir rannsóknarblaðamenn sem hafa reynt að grafast fyrir um hið meinta svindl 1994. FIFA hefur sem minnst viljað um málið ræða, enda virðist afstaða hreyfingarinnar sú að umræða um úrslitahagræðingu sé hættulegri en svindlið sjálft – einkum þegar um sjálft heimsmeistaramótið er að ræða.

Hins vegar á maður erfiðast með að skilja hugsunarhátt knattspyrnumanna sem keppa á HM og eiga kost á að koma þjóð sinni á verðlaunapall væntanlega í eina sinn í sögunni – að freistast til að taka þátt í svindli fyrir þóknun, menn sem eru ríkir og dáðir í heimalandi sínu. Það ætla ég að vona að Stoichkov hafi flengt þá hvern með öðrum.

(Mörk Svía: Tomas Brolin, Håkan Mild, Henrik Larsson, Kennet Andersson)