Fótboltasaga mín 87/100: Mótanefndin

3. september 1989. Fram 2 : KR 1

Fótboltarassvasasálfræði 101: Þegar lið mætast í samliggjandi leikjum í deild og bikar, vinnur liðið sem tapaði fyrri viðureigninni oftar en ekki þá síðari.

Allir knattspyrnuáhugamenn eru með þessi sannindi á hreinu, þótt ég sé ekki viss um að þau standist tölfræðilega rannsókn. Það eru samt alltaf blendnar tilfinningar að mæta sömu andstæðingum tvisvar í röð – einkum þegar báðir leikir er mikilvægir.

Fram og KR mættust með viku millibili haustið 1989. (KR-ingar áttu reyndar leik í millitíðinni – meira um það síðar.) Fyrst í bikarúrslitum og svo í deildarleik í 16. umferð sem skar úr um hvort liðið ætti enn möguleika á titlinum.

Bikarúrslitaleikurinn 1989 var um margt merkilegur. Umgjörðin í kringum hann var meiri en tíðkast hafði. Fjallað var um hann í fjölmiðlum marga daga á undan, nærri 5000 miðar seldust og bæði félög stóðu fyrir ýmsum uppákomum til að auka stemninguna. KR-ingarnir voru ákafari, enda óvanir úrslitaleikjum á meðan slíkar samkomur voru daglegt brauð í Safamýrinni.

Framarar urðu bikarmeistarar eftir fjörugan leik, 3:1, þar sem öll mörkin voru skoruð á fyrsta hálftímanum. (Gummi Steins tvö, Pétur Ormslev eitt – og svo einhver KR-ingur sem ég nenni ekki að nefna.)

Framarar fengu viku til að fagna, en KR þurfti að leika erfiðan leik gegn FH aðeins þremur dögum eftir bikarúrslitin (ég sagðist myndu útskýra það!) – Ástæðan var umdeild ákvörðun mótanefndar.

Upphafið var sú sérkennilega ráðstöfun að setja niður heila umferð í efstu deild sömu helgi og bikarúrslitaleikurinn. Sú hugmynd þætti fráleit í dag, en var kannski til marks um hvað úrslitaleikurinn var talinn minni viðburður fyrir þessa örlagaríku viðureign Fram og KR ´89.

Vegna þessa þurfti að flytja leik Þórs og Fram: annað hvort með því að flýta leiknum um nokkra daga eða seinka honum. Frömurum hugnaðist illa að leika þrjá leiki á viku og kröfðust þess að Þórsleiknum yrði flýtt til 20. ágúst. Landsliðsnefnd KSÍ var á öðru máli og vildi seinka leiknum þar sem Íslandi átti leik gegn Austurríkismönnum í Vínarborg þremur dögum síðar og nokkrir Framarar voru í landsliðshópnum. Um þetta var togast í nokkra daga.

Til að auka flækjustigið blönduðust leikbönn inn í málið. Pétur Ormslev átti yfir höfði sér bann vegna fjögurra gulra spjalda. Yrði Þórsleiknum flýtt yrði hann í banni þá, ella missti hann af bikarúrslitunum. KR-ingar tóku það því óstinnt upp þegar Framarar höfðu sitt í gegn að lokum og töldu til marks um að Fram-mafían hefði KSÍ í vasanum. Það má þó spyrja sig hver gróði Framliðsins varð, því Péturslausir töpuðu Framarar nyrðra. Þau stig reyndust dýrkeypt í lok móts. – Þá þýddi þessi leikjaröðun að Þorsteinn Þorsteinsson missti af úrslitaleiknum sem mér þótti súrt í broti, enda hann uppáhaldsleikmaðurinn minn.

En Framarar mættu sem sagt KR-ingum í sextándu umferð sem nýkrýndir bikarmeistarar. Staðan í deildinni var fáránlega jöfn. Fyrir leikinn var KA með þrjátíu og FH með 29 stig, bæði eftir sextán leiki. Fram og KR voru bæði með 26 stig eftir fimmtán leiki. Sigurvegararnir yrðu enn með í baráttunni. Tap eða jafntefli setti bæði lið nær örugglega úr leik.

Fram var nærri því að ná forystunni þegar Pétur Ormslev þrumaði í stöngina snemma leiks. Eftir hálftíma leik skallaði Pétur Pétursson í Frammarkið. 0:1 í hálfleik, þar sem fátt hafði borið til tíðinda. Einhverra hluta vegna léku KR-ingarnir í varabúningunum sínum – hinum fádæma ljótu svart- og gulröndóttu treyjum sem einhverjum óprúttnum heildsalanum tókst að pranga inn á þá á þessum árum.

Snemma í seinni hálfleik jafnaði Gummi Steins. Við tók nokkuð fjörleg rimma þar sem bæði lið sóttu á víxl. Birkir varði það sem að marki Fram kom og Frömurum mistókst að skapa sér opin færi. Ragnar Margeirsson var tekinn útaf og inn á kom sautján ára gamall Ríkharður Daðason sem þegar fór að ógna.

Þegar vallarklukkan sýndi 88 mínútur og flestir voru búnir að sætta sig við að FH-ingar eða KA-menn yrðu Íslandsmeistarar, komst Ríkharður í gott færi en í stað þess að reyna skot sendi hann til hliðar á Pétur Ormslev sem kom aðvífandi og tryggði sigurinn. Framarar fögnuðu í stúkunni og byrjaði strax að leggja drög að því hvernig ég gæti verið óþolandi við KR-ingana í Hagaskólanum næstu daga.

Fram var enn með í baráttunni um titilinn, þótt það reyndist skammvinn sæla. Í næstu umferð slökkti Ólafur Gottskálksson markvörður ÍA allar meistaravonir okkar í slagveðursleik á Skaganum (hver hefði trúað því?) En það er önnur saga.

(Mörk Fram: Guðmundur Steinsson, Pétur Ormslev. Mark KR: Pétur Pétursson)