Fótboltasaga mín 88/100: Helgarbíltúrinn

10. september 1983. Reynir Sandgerði 0 : Fram 1

Framarar féllu haustið 1982 með fimmtán stig, tveimur stigum minna en Valur, liðið í fimmta sætinu. Þetta var skrítið mót sem einkenndist af fáum mörkum og fáránlega mörgum jafnteflum. Þannig urðu Víkingar Íslandsmeistarar á sjö sigrum og níu jafnteflum í átján leikjum. Þeir skoruðu aðeins 25 mörk, sem þó var hátíð miðað við alræmt leiðindalið KR sem var með markatöluna 14:12 í þriðja sætinu!

Það furðulega er að þrátt fyrir fallið bar Frömurum saman um að ´82-liðið hefði verið síst lakara en liðið sem hafnaði í öðru sæti sumarið áður. Þjálfarinn var pólskur, Andrzei Strejlau og þótti mikill snillingur. Strejlau átti stóran þátt í að byggja upp liðið sem varð svo sigursælt síðar á níunda áratugnum.

En nú voru Framararnir komnir í aðra deildina með kornungt lið og feitan ferðareikning yfirvofandi. Af tíu liðum voru aðeins þrjú af höfuðborgarsvæðinu. Þrjú komu frá Suðurnesjum, önnur þrjú frá Norðurlandi og svo áttu Vopnfirðingar sína fulltrúa, en lið Einherja gerði jafntefli í báðum leikjunum við Fram þetta sumarið.

Þetta var líka sumarið sem ég byrjaði að fylgjast með fótbolta. Eins og rakið var í fyrsta pistli þessarar ritraðar (ég ætlaði fyrst að skrifa bloggraðar, en það orð er bara svo ljót og dónalegt á prenti) þá mætti ég í fyrsta sinn á völlinn á úrslitaleik Reykjavíkurmótsins þá um vorið og gerðist Framari. Í kjölfarið hef ég væntanlega farið að suða í afa að taka mig á annan leik.

Aldrei fannst heppilegur tími, en ég hélt áfram að þráspyrja hvenær væri næsti leikur og hvort við gætum ekki örugglega farið bráðum? Loks fannst smuga. Í næstsíðustu umferð héldu Framarar til Sandgerðis. Reynismenn sátu á botninum og voru fallnir. Með Framsigri væri efstudeildarsætið hins vegar tryggt á ný.

Leikið var á laugardegi og við afi ókum suður með sjó á gömlu appelsínugulu Volkswagen bjöllunni hans. Vafalítið stoppuðum við í kaffi hjá Óla frænda og fjölskyldu. Þau bjuggu í Njarðvík og voru skyldustopp þegar farið var á leiki á Suðurnesjum.

Í minningunni var stríður straumur Framara á völlinn og geysilegur fjöldi áhorfenda. Væntanlega munu tölfræðigögn KSÍ ekki styðja þá upplifun, sem minnir mig á að Knattspyrnusambandið þarf að girða sig rækilega í brók að berja inn gamlar leikskýrslur á KSÍ-vefinn.

Leikið var á malarvelli og áhorfendur stóðu meðfram hliðarlínunni. Reykvískt pjatt eins og stúkur höfðu ekki hafið innreið sína. Annars átti ég erfitt með að einbeita mér að leiknum, þar sem mér fannst nógu áhugavert að virða fyrir mér bæinn. Ég var að „safna“ kaupstöðum og kauptúnum og Sandgerði var nýtt púsl í myndina.

Framararnir voru miklu betri. (Auðvitað fannst mér það sjálfum, en frásagnir dagblaðanna virðast styðja þá minningu.) Kristinn R. Jónsson skoraði snemma leiks og fékk skömmu síðar vítaspyrnu. Hafþór Sveinjónsson þrumaði í stöng. Annað mark lá í loftinu en Reynismarkvörðurinn var í stuði og rækilega pakkað í vörn. Í einum af fáum skyndisóknum Reynis, undir lok fyrri hálfleiksins, slapp framherji heimamanna einn inn fyrir. Guðmundur Baldursson hljóp út úr markinu og þeir skullu saman.

Dómarinn flautaði, annað hvort rangstöðu eða brot á Suðurnesjamanninn. Guðmundur lá á bakinu, harla ósáttur og þegar andstæðingurinn sneri sér við spyrnti Guðmundur með báðum fótum í óæðri endann á honum.

Að sparka í rassinn á einhverjum var vitaskuld það fyndnasta átta ára strákur gat hugsað sér og ég var hæstánægður með minn mann. Sú gleði dofnaði nokkuð þegar dómarinn kom aðvífandi með rautt spjald á lofti. Þetta var þeim mun óvæntara í ljósi þess að á fyrri hluta níunda áratugarins voru það nánast einvörðungu líkamsárásir sem leiddu til dauða eins eða fleiri andstæðinga sem gáfu beint rautt.

Manninum færri höfðu Framarar hægt um sig í seinni hálfleik, enda eins marks sigur nóg. Sjálfur var ég eiginlega alveg hættur að nenna að fylgjast með, enda varla með úthald í níutíu mínútur. Það var líklega engin tilviljun að afi sleppti því að fara með mig á völlinn sumarið eftir. Og ekki var ég tekinn með í lokaleikinn þetta sumarið þar sem Fram vann FH og tryggði sér 2. deildar bikarinn í lokaleik goðsagnanna Marteins Geirssonar og Jóns Péturssonar.

(Mark Fram: Kristinn R. Jónsson)