Fótboltasaga mín 89/100: Metsölubókin

27. júlí 2007. Fjarðabyggð 0 : Fjölnir 2

Það mun kom að því að einhver bókaútgefandinn kveiki á  að láta semja Öskubuskusögu íslenskrar knattspyrnusögu. Hún mun segja frá Skallagrímsliðinu á tíunda áratugnum, Víði Garði sem fór alla leið í bikarúrslit, Leiftri Ólafsfirði og Völsungi frá Húsavík á ofanverðum tíunda áratugnum og Ísafjarðarliðinu 1983. Það verður æðisleg bók.

Í kjölfar óhjákvæmilegra vinsælda þessarar bókar verður samið framhaldsrit: ævintýrin sem næstum því urðu. Það verður öllu melankólískari frásögn af liðunum sem meikuðu það næstum því upp í deild hina bestu. Ármann á sjöunda áratugnum, Siglufjarðarliðið sem komst upp en tapaði á kæru fyrir að nota of ungan leikmann og svo verður það Fjarðabyggð 2007…

Þorvaldur Örlygsson er líklega snjallasti þjálfari landsins. Hann skortir sannarlega ákveðna þætti í mannlegum samskiptum og er ekki sá klókasti í að tala við fjölmiðla, en sem þjálfari eru líklega færri klókari. 2006 tók hann við stjórn Fjarðabyggðarliðsins og rúllaði upp C-deildinni. Að lafa í næstefstu deild, fyrstu tólf liða deildinni í íslensku knattspyrnusögunni, var talið eðlilegt markmið árið eftir.

Fjarðabyggðarliðið var ekki skipað neinum stjörnum en það gat pakkað í vörn. Þegar mótið var hálfnað var Fjarðabyggð í næstefsta sæti og á leið upp um deild, en fjölgun í efstu deild yfirvofandi og þrjú lið sem færu upp. Fjarðabyggð hafði bara fengið á sig fimm mörk í leikjunum ellefu og framtíðin virtist björt. Í næstu umferð mættu Austfirðingar Þrótturum í Laugardalnum. Ég leit á lokamínúturnar til að fylgjast með mínum mönnum (enda tengdasonur Norðfjarðar) en sá Hjört Hjartarson skora fúlt mark og tryggja heimamönnum sigur.

Þrátt fyrir tapið gegn Þrótti var ennþá allt opið í toppbaráttu fyrstu deildar (fyrir utan að Grindavík vann alla og var örugg með toppsætið). Stóri uppgjörsleikurinn yrði Fjarðabyggð : Fjölnir í þrettándu umferð, í síðasta leik fyrir verslunarmannahelgi.

Ég var kominn austur nokkrum dögum fyrir leik og skutlaðist yfir á Eskifjörð til að sjá toppslaginn. Ekki hafði ég vit á að semja um samflot með Smára, frænda Steinunnar heldur hitti hann bara á vellinum ásamt fáeinum öðrum Norðfirðingum sem ég kannaðist við.

Þetta var sex stiga leikur. Fjarðabyggð fékk þokkaleg færi í byrjun, en virtist ekki jafn sannfærandi í vörninni og verið hafði. Grafarvogsbúar komu þeim nokkrum sinnum í vandræði, einkum Pétur Markan. Eftir pressu frá honum setti einn heimamanna boltann í eigið net undir lok fyrri hálfleiks. Fjarðabyggð þurfti að mjaka sér framar á völlinn, nokkuð sem átti ekkert sérstaklega vel við liðið. Pétur Markan skoraði aftur snemma í seinni hálfleiknum og Fjölnismenn drápu leikinn síðasta hálftímann.

Og þar með var draumurinn úti. Þróttarar skriðu upp að hlið Grindvíkinga á toppnum. Fjölnir hélt þriðja sætinu dýrmæta og Eyjamenn, sem byrjað höfðu illa, höfnuðu í fjórða sæti. Fjarðabyggð endaði í fimmta sæti með 37 stig og þá kostulegu markatölu 23:17 í 22 leikja deild.

Þessi árangur var frábær, hvernig sem á það var litið. Þorvaldur gerðist þjálfari Fram og tók tvo af mikilvægustu mönnunum með sér. Fjarðabyggðaliðið tók hins vegar dýfu og var fáeinum misserum síðar komið niður í gömlu fjórðu deildina. Það er reyndar einkenni á Öskubuskuævintýrunum í íslenska boltanum, að mönnum er skellt ansi hratt niður á jörðina.

(Mörk Fjölnis: sjálfsmark, Pétur Georg Markan)

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *