25. september 1993. Fram 2 : KR 4
Þegar mótanefnd KSÍ birtir leikjaplan næsta tímabils láta flestir nægja að tékka á fyrstu tveimur umferðunum og þeirri síðustu. Fjölmiðlarnir reyna að sigta út stórleikina og giska á hvar úrslitin kunni að ráðast.
Hinn augljósi úrslitaleikur sumarsins 1993 – áður en mótið hófst – var viðureign Fram og KR í átjándu umferð. Spekingar reiknuðu með að þessi lið myndu berjast við Skagamenn um titilinn. Annað kom á daginn.
Akranes var langbest og fékk fullt hús stiga nema á móti okkur Frömurum sem tókum fjögur stig af þeim. Öllum að óvörum varð FH langnæstbest og Keflvíkingum tókst að mjaka sér uppfyrir Reykjavíkurliðin. Þegar kom að átjándu umferð voru öll úrslit ráðin önnur en hvort ÍBV eða Fylkir féllu niður um deild. Hinn fyrirhugaði stórleikur í Laugardalnum reyndist því hálfgert antíklímax með 400 hudtrygga stuðningsmenn sem gátu varla beðið eftir að mótinu lyki.
Sjálfur hafði ég reyndar engan tíma til að mæta á völlinn. MR-Verslódagurinn stóð fyrir dyrum og ég var í ræðuliðinu.
MorfÍs-keppnir þessara ára (og ég reikna ekki með að það hafi mikið breyst í dag) voru stíft prógram í heila viku. Keppt var á föstudögum og byrjað að semja um umræðuefni síðdegis á fimmtudegi vikunni áður. Það var yfirleitt margra klukkustunda pissukeppni og ekki óalgengt að málið væri óútkláð eftir maraþonþref morguninn eftir. Þegar efnið var loksins komið tóku við stífar pælingar og loks ræðusamning alla helgina með sífelldum fundum þar liðsmenn báru saman bækur sínar. Með góðum vilja var svo alveg hægt að réttlæta fyrir sjálfum sér að skrópa nánast alla vikuna á eftir til að æfa ræðuna.
Það var því lítið svigrúm fyrir fótboltagláp á laugardegi í þessari dagskrá – og ég bakaði mér litlar vinsældir hjá Daníel Frey þjálfara eða liðsfélögum mínum þegar ég tilkynnti að nú væri fótboltaleikur og ég kæmi aftur eftir fjóra tíma.
Ég mætti sem sagt á Laugardalsvöll, en það sama verður ekki sagt um alla leikmennina. Leikurinn var ótrúlega daufur. Óli Jó vinur minn og KR-ngur fékk að sitja hjá okkur Frömurunum, sem var til marks um hversu litlu máli leikurinn skipti. Á „alvöru“ leikjum Fram og KR höldum við okkur alltaf í góðri fjarlægð hvor frá öðrum.
Bjarki Pétursson kom KR yfir með klaufalegu marki sem lak í netið eftir að Birkir Kristinsson náði ekki að slá knöttinn framhjá. Það var ergilegt enda þótti Bjarki frekar kátlegur spóaleggur, nýkominn frá Tindastóli og algjör óþarfi að koma honum á markaskoraralista. Steinar Ingimundarson kom KR í 0:2 áður en Ingólfur Ingólfsson, besti leikmaður Fram þetta sumarið, minnkaði muninn undir lok hálfleiksins. Blaðamaður Morgunblaðsins hefur greinilega dottað yfir leiknum, því hann skrifaði markið á Kristján Jónsson – sem er sérkennilegur ruglingur.
Kristján (sem var eini Framarinn sem ekki fékk lægstu einkunn í DV) gaf klaufalegt víti þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. KR-ingar sýndu hroka glæpamannsins og létu Þormóð Egilsson taka spyrnuna. Hann skoraði og KR-stuðningsmennirnir fögnuðu. Við Framarar vorum spakir, enda enn tvö ár í að Þormóður yrði Quisling sinnar kynslóðar að okkar mati.
Daði Dervic, sem var langbesti maður vallarins kom svo KR í 1:4 áður en Ágúst Ólafsson krafsaði í bakkann undir lokin. Tveggja marka munurinn reyndist þó stærsti sigur KR á Fram í ellefu ár eða allt frá 2:0 viðureign árið 1982. Annars voru Framarar minnst að hugsa um slíkt. Helst að leikmennirnir reyndu að skapa færi fyrir Helga Sigurðsson sem átti mögulega á silfurskónum, en náði ekki.
Undir lokin kom Jói Tomm, gamall skólafélagi úr Hagaskólanum inná í sínum fyrsta og eina deildarleik fyrir KR. Og einhvern veginn fannst manni það vera merkilegustu tíðindi dagsins á leiðinni til baka á ræðuliðsæfinguna. En hvernig sú keppni fór eða hver var ræðumaður kvöldsins gæti ég ekki rifjað upp til að bjarga lífi mínu.
(Mörk Fram: Ingólfur Ingólfsson, Ágúst Ólafsson. Mörk KR: Bjarki Pétursson, Steinar Ingimundarson, Þormóður Egilsson, Daði Dervic)