Jæja, Egill Helgason svarar færslunni minni hér að neðan. En þar sem ég þykist vita að stór hluti lesenda þessarar síðu sleppi því að lesa athugasemdirnar með færslunum, ætla ég að skella svarinu hérna inn.
Á svarinu sakar Egill mig um málfundabrögð. Ætli það sé samt ekki best að leyfa bara lesendum að dæma um hver sé með útúrsnúningana.
Deilt er um setninguna: „Það tók bolsévíka ekki nema svona vikutíma að myrða jafnmarga og keisarastjórnin hafði látið drepa á mörg hundruð árum.“
Þessi fullyrðing er í senn rakalaus og kjánalegur þvættingur að mínu mati.
En Egill svarar:
„Stefán getur notað einhver svona málfundarbrögð. Þetta er samt staðreynd. Á rauða terrornum í september 1918 er talið að hafi verið drepin hátt í 15 þúsund manns á stuttum tíma. Á árbilinu 1825-1917 felldu dómstólar keisarastjórnarinnar 6321 dauðadóm vegna pólitískra glæpa, mest árið 1906, árið eftir byltinguna 1905. Þá voru 1310 dæmdir til dauða. Algengt var að dauðadómunum væri breytt í lífstíðarfangelsi eða dvöl í vinnubúðum.
Á stuttum tíma 1918 tókst bolsévíkalögreglunni Cheka semsagt að drepa tvisvar til þrisvar sinnum fleiri pólitíska óvini en keisarastjórninni á hundrað árum.
Svo er nú það.“
Með setningunni: „Það tók bolsévíka ekki nema svona vikutíma að myrða jafnmarga og keisarastjórnin hafði látið drepa á mörg hundruð árum“ – átti Egill Helgason við að „áætlaður fjöldi þeirra sem drepinn var af rauðliðum á tilteknu tímabili í rússnesku borgarastyrjöldinni, samkvæmt sumum heimildum, er hærri en fjöldi dauðadóma yfir pólitískum föngum samkvæmt opinberum skýrslum frá keisarastjórninni.“
Kjáninn ég skildi setninguna sem svo að átt væri við hversu marga keisarastjórnin hefði látið drepa – og þá á mörg hundruð árum. En auðvitað var ég bara með útúrsnúninga og „málfundabrögð“. Það hlýtur hver einasti maður að sjá…