Mér tókst að leiða þennan klukk-þú-ert´ann-leik hjá mér ansi lengi, en þar sem farið er að ítreka áskoranir og ragmana mig, skal ég birta þennan helv. fimm atriða lista. Held að þetta séu allt áður óþekkt eða tiltölulega lítið þekkt atriði um mig:
i) Ég held að ég hafi aldrei stundað búðahnupl sem krakki, þrátt fyrir að ýmsir félagar mínir hefðu verið liðtækir við þá iðju. Það eina sem ég man eftir að hafa stolið úr búð voru einhver fótboltaspjöld eða límmiðar sem fylgdu með einhverjum tímaritum. Lenti heldur ekki í neinum vandræðum vegna þessa, þótt einhverju sinni hafi afgreiðslumaður rekið augun í mig við þessa iðju. Hann lét nægja að skipa mér að kaupa blaðið.
ii) Um tíu eða ellefu ára aldurinn gerðist ég trúleysingi, eins og sést á meinfýsnum kristinfræðiverkefnum sem hafa geymst frá Melaskólaárum mínum. Ég reyni að koma mér undan kirkjulegum athöfnum öðrum en útförum. Við þau tilefni spenni ég aldrei greipar, muldra ekki faðirvorið né loka augunum meðan presturinn þylur upp bænir. Ég geri heldur ekki krossmörk yfir kistu hins látna. Ekki af virðingarleysi gagnvart trúnni heldur þvert á móti vegna þess að ég ber það mikla virðingu fyrir trú annars fólks að mér finnst það óviðeigandi að ég, trúlaus maðurinn, taki þátt í athöfnum þeirra.
iii) Þegar ég var við nám í Edinborg, héldu flestir nágranna minna á stúdentagörðunum að ég væri stórtækur hassreykingarmaður. ístæðan var sú að ég fór reglulega í heimsókn til félaga míns sem hafði byrjað í sama námi og ég en flosnaði upp nánast strax. Hann átti afar erfitt uppdráttar, enda með sífellda verki eftir slys sem hann lenti í sem barn. Hann var háður morfíni og notaði óspart kannabis til að lina þjáningarnar. Plönturnar ræktaði hann sjálfur inni í svefnherbergi og lyktin var yfirþyrmandi (hann fór nánast aldrei út úr húsi). Á hvert sinn sem ég heimsótti þennan kunningja angaði hver einasta flík af kannabis í lengri tíma á eftir. Óðinn má vita hvað skólameistarinn í VMA með hasshundana sína hefði gert í námunda við mig.
iv) Ég er með eina raunverulega fælni. Það er plöntufóbía. Þessi fælni beinist einkum að pottaplöntum og getur verið afar stæk. Meðan ég bjó einn hafði ég engar plöntur inni hjá mér og færði meira að segja til blóm á stigagangnum í blokkinni sem voru óþægilega nærri hurðinni minni. Plastblóm geta kallað fram sömu viðbrögð. Afskorin blóm líka. Ég veit að þetta hljómar fíflalega (no pun intended!), en flestar tegundir fælni eru fáránlegar í augum annarra.
Það er stutt síðan ég þorði að segja nokkrum manni frá þessari fælni minni. Steinunn var sú fyrsta til að heyra af henni fyrir nokkrum mánuðum síðan. Núna er ég endanlega kominn út úr skápnum með hana. – Blóm og kransar afþakkaðir…
v) írið 1997 eða þar um bil var ég formaður í Reykjavíkurfélagi ungs Alþýðubandalagsfólks. Á stjórninni, sem var svo sem ekki sú virkasta, sátu sjö manns. Ég var eini strákurinn ásamt Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni – sem er í dag í hljómsveitinni Múm. Örvar mætti ALDREI. Held ekki einu sinni á fundinn þar sem hann var kosinn í stjórnina. Ég var því raunar einn í stjórninni með fimm stelpum, þar á meðal Steinunni. Vikublaðið, málgagn Alþýðubandalagsins, smellti af okkur mynd og skrifaði gamansama grein um kvennaríkið sem ég mætti þola.
Fjórum árum síðar, þegar við Steinunn vorum byrjuð saman, nefndi ég þessa stjórnarsetu í framhjáhlaupi. Hún mundi ekkert eftir þessu og þvertók fyrir að hafa setið í slíkri stjórn og lét sér ekki segjast fyrr en ég gat dregið fram gömlu blaðaúrklippuna. Ég var greinilega ekki mjög minnisstæður náungi um miðbik tíunda áratugarins.
Og svona var nú það…