Fór með Ólínu á heilsugæslustöðina í Hlíðunum í sexmánaða skoðun síðdegis. Þar fékk hún sprautu í rassinn með tilheyrandi kvörtunum. Það róar vonandi suma lesendur þessarar síðu að ég hef ekkert á móti því að bólusetja kornabörn fyrir stífkrampa – og ef út í það er farið að gamalt fólk eða lasburða fái flensusprautur.
Það er hins vegar þetta með að fullfrískt ungt fólk láti sprauta sig fyrir venjulegri flensu á hverju ári sem ég set spurningamerki við.
Gríslingurinn var veginn og mældur. Barnið er 8,4 kíló og 68 sentimetrar.
# # # # # # # # # # # # #
Eftir heimsóknina á heilsugæslustöðina (og stuttan lúr) fórum við á Sankti Jó. Steinunn lét nefnilega bóka sig í þriggja daga lyfjakúr um leið og ÖBí-aðalfundinum lauk og ætti þá að vera orðin vel rólfær á aðalfundi MS-félagsins um aðra helgi. Hún mun hins vegar missa að mestu af VG-landsfundinum um helgina.
# # # # # # # # # # # # #
Fínn fundur hjá SHA í Friðarhúsinu í kvöld. Samþykktum ályktun í tengslum við fréttirnar af samningaviðræðunum um herstöðina. Það er ömurlegt að horfa upp á íslensk stjórnvöld grátbiðja Kanann um að fara ekki fet. Það eina hreinlega í stöðunni væri að loka sjoppunni og láta herinn hreinsa upp eftir sig áður en hann fer.
En maður skilur svo sem að Albert Jónsson sé súr. Ríkisstjórnin taldi sig jú hafa tryggt sér gálgafrest með þessari kolbrjáluðu stuðningsyfirlýsingu við stríðið í írak. Það er nú toppurinn af smekkleysunni.