Milljón dala hugmynd
Á gær vorum við Steinunn og Steinþór blogghatari á Mánagötunni. Þar góndum við á þátt af ER, sem ég missi blessunarlega yfirleitt af. Það er nú samt gaman að sjá fólk hlaup fram og til baka og hrópa óskiljanleg nöfn á lyfjum, lækningatólum og furðusjúkdómum. Þá kom upp sú hugmynd að búa til eins þátt með hugvísindamönnum en ekki læknum.
Hugsið ykkur bara ef sögusviðið væri rannsóknarstofnun í hugvísindum, t.d. Hugvísindastofnun Háskólans, þar sem fylgst yrði með einkamálum prófessora og doktorsnema milli þess sem þeir leystu úr vandamálum tengd fræðunum í kapp við tímann – helst á troðfullri kennarastofu. Þar gætu þau hrópað hvert á annað mismunandi greiningar sínar á textavenslum, postmódernískum fræðikenningum og skrifað ritdóma í kapp við skilafresti. Þá gætu komið inn í þetta siðferðileg álitamál – ætti unga heimspekistúdínan að fremja föðurmorð í fræðunum með því að saka aldurhniginn prófessorinn sinn um að þekkja ekki til post-kólonalíalismans í ritfregn í Skírni. Efnilegi sagnfræðilektorinn gæti náð að hindra stöðuframgang samkeppnisaðilans með því að hanka hann á því að stela frá Derrida eða vitna vitlaust í Sögu Stjórnarráðsins eftir Agnar. – Og hver sefur hjá ítalska skiptikennaranum? Uppskafningurinn á skrifstofunni eða taugaveiklaði skorarformaðurinn?
Þetta stöff myndi slá í gegn. Pottþétt!