Fyrir skömmu fékk ég nokkur eintök af fótboltaspilinu Spark frá útgefanda, til að koma á vini og vandamenn. Um þessar mundir er ég að fá viðbrögð frá þeim sem fengu spil í hendurnar og þau er býsna góð. Allra harðsnúnustu fótboltanördar segjast reyndar vera fullfljótir að fara í gegnum allt spilaborðið. Þeim er bara bent á að hnika til reglunum – fara tvisvar í gegnum borðið eða e-ð álíka. Aðalmálið er að spurningarnar mælast þokkalega fyrir.
Er enn ekki farinn að heyra neinar sölutölur og hef ekki viljað angra útgefandann með því að spyrja. Hann er með nóg annað á sinni könnu.
Sömuleiðis hef ég ekki hugmynd um hvernig sjónvarpsþátturinn er að mælast. Þar sem Sparkið er á sama tíma og Latibær á RÚV, býst ég við að hann fari framhjá öllum heimilum þar sem krakka er að finna. Er hægt að horfa á þáttinn á netinu? Svona fylgist maður nú illa með sínu eigin efni…
Næsti þáttur verður hins vegar skemmtilegur. Þar mætast fjallmyndarlegir fótboltamenn og alþingismenn.
# # # # # # # # # # # # #
Um daginn labbaði ég fram hjá veitingastað sem ég hafði aldrei heyrt um áður – Indian Mango – á einni hliðargötu Laugavegs. Nafnið vakti athygli mína. Veit einhver lesandi þessarar síðu deili á veitingastaðnum? Er þetta eitthvað til að prófa? Hvernig er verðið?
# # # # # # # # # # # # #
Á fyrramálið þarf Steinunn að mæta á fund í framkvæmdastjórn ÖBí, eldsnemma. Fyrir vikið tek ég Ólínu með mér í vinnuna og hef hana á arminum á sama tíma og ég reyni að messa yfir grunnskólabörnum um sögu og eðlisfræði rafmagnsins. Það mun reyna á – ekki hvað síst þar sem nógu erfitt getur verið að halda athygli krakkanna án þess að svona truflun bætist við.
Seinni partinn þarf ég svo að mæta á fund vegna verkefnis sem ég neyddist til að taka að mér, þar sem ég skulda viðkomandi manni greiða.
# # # # # # # # # # # # #
Á fimmtudaginn fer ég í feðraorlof. Þetta verður skringilegasti desembermánuður allra tíma, engin knýjandi verkefni – bara afslöppun og huggulegheit. – Fyrir utan reyndar að stilla upp eitt stk. framboðslista VG fyrir jól, en það tekur sig nú varla að hafa orð á slíkum smámunum.
Og jú – ég þarf líka að semja eitt erindi fyrir hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélagsins, halda úti starfseminni í Friðarhúsi, safna hlutafé fyrir afborgunina um miðjan mánuðinn, semja ritdóm fyrir Sagnir – tímarit sagnfræðinema, undirbúa skóflustungu fyrir þjónustubyggingu Minjasafnsins og búa til skrilljón barmmerki fyrir hin ýmsustu pólitísku samtök.
Með öðrum orðum: tóm afslöppun og unaður.