Ætli nokkru öðru íþróttafélagi en KR-ingum hefði dottið í hug að ráða nektardansmeyjar á karlakvöld? Líklega hefur sami náungi fengið þessa hugmynd og sem kom því til leiðar um árið að félagið keypti sér bar, Rauða ljónið.
Borgarstjóri Reykvíkinga mætti í viðtal vegna þessa máls og sagðist almennt séð ekki skipta sér af því hvað karlmenn gerðu í frítíma sínum – en að hér gegndi sérstöku máli þar sem samkoman hefði farið fram í húsnæði íþróttafélags sem nyti stuðnings borgarinnar.
Þessi ummæli verða raunar ekki skilin öðru vísi en sem stórfelld stefnubreyting – ef ekki Samfylkingarinnar þá a.m.k. Steinunnar Valdísar – í málefnum strípiklúbba. Eitt af því sem R-listinn kom til leiðar á valdaferli sínum var einmitt að setja strípiklúbbum stólinn fyrir dyrnar og hrekja þá til Kópavogs. Það var yfirlýst stefna borgaryfirvalda að reyna að útrýma starfsemi þessara staða – en nú segist borgarstjóri ekki vilja skipta sér af kroppasýningum fyrir karlmenn í frítíma þeirra, svo framarlega sem það gerist ekki í húsum á vegum borgarinnar. íhugavert!
Hvað eru annars margir strípiklúbbar starfræktir á höfuðborgarsvæðinu núna? Fyrir nokkrum árum virtust þeir spretta upp eins og gorkúlur – og mig minnir að Akureyringar hafi haldið úti 4-5 stöðum á tímabili.
Mér reiknast svo til að ég hafi farið 4-5 sinnum inn á svona staði á ævinni. Fyrsta skiptið var í Barcelona þar sem spurningalið MR var á ferðalagi sumarið 1995. Þar var sóðabúllan Taboo í kjallara hótelsins okkar á Römblunni og svo fór að lokum að við mönuðum okkur upp í að líta þangað niður. Eftir tuttugu mínútna kúltúrsjokk hrökkluðumst við út aftur við aðhlátur staðargesta sem voru af talsvert öðru sauðahúsi.
Eftir að strípiklúbbavæðingin hófst í Reykjavík spurðist út að staðurinn í Hafnarstrætinu, sem ég man ekkert hvað hér, ætti frábært úrval af viskýi á sanngjörnu verði. Eitthvert kvöldið endaði ég þar og drakk meira og betra viský en skynsemi og bragðlaukar leyfðu. Þann leik endurtók ég tvisvar eða þrisvar, alltaf eftir lokun á Næsta bar, enda voru strípiklúbbarnir opnir miklu lengur en barirnir.
Síðasta strípiklúbbsheimsóknin var 1999 ef ég man rétt, þegar hópur af breskum uppum kom til Íslands og lék krikketleik gegn Krikketklúbbnum Kylfunni. Við fórum með mennina út að borða og svo vildu þeir komast á súlustað. Þórskaffi var í grenndinni svo við fylgdum þeim þangað. Á leiðinni spurðu þeir hvar hægt væri að kaupa kókaín. Við sögðumst ekki hafa hugmynd um það og efuðumst um að það væri auðfundið í Reykjavík. Eftir heimsóknina á Þórskaffi snarhættu Bretarnir að spyrja út í kókaínmarkaðinn, en gerðust sífellt undarlegri í háttum eftir hverja klósettferð á skemmtistöðum borgarinnar.
Jamm.
# # # # # # # # # # # # #
FRAM gerði jafntefli við Þór Akureyri í kvöld. Það eru í raun ágæt úrslit, því eftir stendur að nú mun sigur í þremur síðustu leikjunum duga til Íslandsmeistaratitils í handboltanum. Þá er bara að krossleggja fingur.
# # # # # # # # # # # # #
Sé á Moggavefnum að MRingar unnu í úrslitaleiknum í Morfís. Það er fyrsti sigurinn síðan 1988!
Sjálfur keppti ég í Morfís fyrir MR í tvígang: 1991-2 og 1992-3. Seinna árið töpuðum við í úrslitum. Síðar átti ég eftir að koma að þjálfun þriggja liða í úrslitum Morfís: MR, FB og MH. Tveir þessara úrslitaleikja töpuðust en einn vannst. Ég veit því mætavel hversu miklar tilfinningar hrærast í keppendum, hvílík gleði hlýtur að vera í herbúðum MRinga núna og hversu sár vonbrigði MH hljóta að vera. Hitt er annað mál að framhaldsskólanemar verða að átta sig á að Morfís getur ekki höfðað til annarra en þeirra sem eru í framhaldsskólunum, þetta er vont útvarpsefni og enn verra sjónvarpsefni. Allar hugmyndir um að reyna að koma þessu í ljósvakamiðla eru því afleitar.
# # # # # # # # # # # # #
Hverjar eru líkurnar á að a.m.k. einn af stóru fjölmiðlunum muni búa til aprílgabb sem gengur út á að ríkisstjórnin sé búin að semja um rússneskan her á Miðnesheiði? Eða auglýsa brunaútsölu aldarinnar þar sem allir eru hvattir til að keyra til Keflavíkur til að hirða hergóss fyrir ekki neitt?