Það eru ýmis dæmi um það í sögunni að heilu starfstéttirnar hafi orðið „úreltar“ á örskotsstundu. ímist vegna tæknibreytinga, breyttrar tísku eða af öðrum sökum.
Á þessari viku hygg ég að ein stétt manna hafi grafið sína eigin gröf: varalesarar.
Til skamms tíma var varalestur viðurkennd grein og oft hefur verið gripið til varalesara, t.d. í dómsmálum þegar greina hefur þurft orðaskil á sjónvarpsupptökum. Núna er það búið.
Nú hafa flestallir varalesarar heimsins spreytt sig á því í tæpa viku að rýna í hvað ítalska fólið sagði til að reyta Zidane til reiði – en engar tvær skýringar virðast passa. Sumir varalesarar segja að ummælin hafi snúist um mömmu kappans, aðrir draga systur hans inn í málið, enn aðrir að svívirðingarnar hafi falið í sér brigsl um lyfjamisnotkun og aðrir að þrjóturinn hafi kallað Zidane hryðjuverkamann eða boðist til að sænga hjá konunni hans.
Með öðrum orðum – varalesarar hafa afhjúpað sjálfa sig og í ljós kemur að fræði þeirra ganga út á það eitt að giska á eitthvað sem hljómar líklega. Vonandi eru varalesarar heimsins með góðan lífeyrissjóð…
# # # # # # # # # # # # #
Horfði með öðru auganu á Rokkstjörnuleitina á Skjá einum um daginn. Þar vakti sérstaka athygli stúlka sem stökk til þegar kom að því að velja sér lag til flutnings og pantaði að fá að syngja Johnny Cash-lagið sem í boði var. Lét hún þess getið að hún væri mikið búin að vera að hlusta á Johnny Cash upp á síðkastið og héldi mikið upp á lögin hans.
Síðan varð hún fyrir miklum vonbrigðum, þegar í ljós kom að hún kannaðist ekki neitt við lagið sem hún fékk og hafði aldrei heyrt það áður.
Lagið var Ring of Fire.
Hvernig er hægt að stúdera Johnny Cash en komast hjá því að heyra Ring of Fire? Er það ekki á pari við að halda mikið upp á Dexy´s Midnight Runners en kannast ekkert við þetta „Come on Eileen“?
# # # # # # # # # # # # #
Langt fram eftir síðustu öld var orðtakið „Litlu verður Vöggur feginn“ algengt í rituðu máli, en þetta notar ekki nokkur maður í dag. En hver skyldi þessi herra Vöggur hafa verið?