Á gær las ég Ljóra sálar minnar, greinasafn e. Þórberg Þórðarson. Þar var margt forvitnilegt að finna, sem vænta mátti.
Á umfjöllun skáldsins um pólitíkina og kosningarnar 1911 að mig minnir, getur Þórbergur um Heimastjórnar Dabba sem virðist hafa látið hvað dólgslegast í sveit Heimastjórnarflokksins, sem Þórbergur hafði litlar mætur á.
Þetta klingdi bjöllum hjá mér – því í bréfasafni Steinþórs langafa má finna handrit að tveimur leikþáttum, sem mér virðist að hafi verið sett upp á vegum Ungmennafélags Reykjavíkur þegar hann var þar í forystusveit. Um árið barði ég mig í gegnum styttra (og auðlesnara) handritið, sem var sakleysislegur gleðileikur þar sem spilltu yfirstéttarforeldrarnir reyna að fá siðprúðu dótturina til að slá sér upp með „fínum“ drengjum, sem reynast vera labbakútar sem reykja og drekka – en dóttirin knáa vill frekar prúðan pilt, en ættsmærri, sem er í ungmennafélaginu. Allt endar svo vel að lokum. (Þessi endursögn er eftir minni – las þetta fyrir mörgum árum.)
Hitt leikritið er lengra og pólitískara – og líklega illskiljanlegt þeim sem ekki þekkja til stjórnmálasögu tímabilsins. Þar er í veigamiklu hlutverki Heimastjórnar Dabbi sem ég hélt að væri bara heiti á steríótýpu frekar en raunverulegum manni.
En eftir lesturinn á Þórbergi verður ekki betur séð en að Davíð þessi (Dabbi hlýtur að vera viðurnefni á e-m Davíð) hafi verið til. Og þá spyr ég hina fjölfróðu lesendur mína: Hver var Heimastjórnar Dabbi – sem hefur verið virkur í Rvíkur-pólitíkinni amk á árunum 1911-1918.