Þingmannaveikin er furðualgengur sjúkdómur, sem þó er hvergi getið um í handbókum lækna og hjúkrunarstarfsfólks. Engu að síður er um þrálátan kvilla að ræða, sem getur valdið viðkomandi sjúklingum, en þó jafnvel fremur fjölskyldu og vinum hans/hennar miklu hugarangri.
Þingmannaveikin er barnasjúkdómur. Það þýðir að sá sem fær veikina ungur að árum, á meiri líkur á að sleppa við hana þegar komið er á fullorðinsár. Líkt og gildir um aðra barnasjúkdóma, leggst veikin sjaldnast mjög þungt á ungmenni en harðfullorðið fólk getur orðið afar illa haldið. Athugið þó að það að veikjast snemma er ekki trygging fyrir að sleppa við hinar skaðlegri birtingarmyndir sjúkdómsins, því mörg dæmi eru um að sjúkdómurinn hverfi ekki úr líkamanum heldur liggi í dvala og geti því blossað upp aftur fyrirvaralítið hvenær sem er á lífsleiðinni.
Sjálfur fékk ég vírusinn (eða bakteríunna – vísindamenn deila enn um hvað valdi sjúkdómnum) á táningsárum. Þegar ég var átján ára og starfaði í ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins, fannst mér þingmennska vera toppurinn á tilverunni. Þannig hugsa flestir ungliðar – og eru sannfærðir um að þingsætið sé innan seilingar. Eftir nokkurra ára sjúkdómsmeðgöngu gerist hins vegar yfirleitt eitt af eftirtöldu:
* Viðkomandi áttar sig á takmörkunum sínum, að hann/hún hafi ekkert erindi á þing. (Þetta er afar sjaldgæft, en kemur þó fyrir.)
* Viðkomandi kynnist atvinnustjórnmálamönnum betur og við það hverfur glansinn af djobbinu.
* Viðkomandi fer í skóla eða ræður sig í vinnu sem kveikir áhuga hans/hennar á nýjum viðfangsefnum.
Kosturinn við að taka þingmannaveikina út um tvítugt er sá að sjúkdómurinn brýst þá helst út í dagdraumum eða á þriðja glasi. Þá geta ungmenni alltaf talið sér trú um að „þeirra tími muni koma“ og að hægt sé að bíða í fjögur eða átta ár til viðbótar, frekar en að grípa til örþrifaráða. Það er munaður sem eldra liðið getur ekki leyft sér. Fólk sem er komið yfir miðjan aldur finnst það vera að falla á tíma og er því eins og naut í flagi í framapotinu.
Nú má enginn skilja þessa færslu á þann veg að það sé slæmt að til séu atvinnustjórnmálamenn, sú stétt er vitaskuld mikilvæg. Það er heldur ekkert sem segir að fólk með þingmannaveikina geti ekki orðið ágæt þingmenn, þótt þumalputtareglan sé raunar sú að því tregari sem stjórnmálamenn eru til að leggja pólitíkina fyrir sig, því farsælli verða þeir. Vandamálið er hins vegar hinir, sem langar á þign en komast þangað ekki. Það er steinbarn sem vont er að ganga með svo árum skiptir.
Hvers vegna þessar hugleiðingar núna? Tja, ég fór að velta vöngum yfir þessu meðan ég hlustaði á tvö viðtöl, frekar en eitt, við Ómar Ragnarsson á gamlársdag – þar sem hann var valinn maður ársins á tveimur ljósvakamiðlum.
Ómar hefur farið í ótal viðtöl síðustu mánuðina vegna Kárahnjúkamálsins – og ansi oft hefur hann fengið sömu spurninguna: Ertu á leið í framboð?
Lengi vel var svarið alltaf á sömu leið – að hann teldi vænlegra að gera það sem hann gerði best: að gera fréttamyndir um náttúru Íslands (sem allir eru sammála um) og semja lög og texta (sem skiptari skoðanir eru um).
Eftir því sem tíminn leið, fór Ómar að verða duglegri að hnýta aftan við þetta svar almennum orðum um að hann yrði var við spurn eftir framboði sem væri með and-virkjanastefnu en höfðaði til gamalla Sjálfstæðismanna…
Við að horfa á viðtölin á gamlársdag sannfærðist ég um að Ómar er kominn með þingmannaveikina og gangur sjúkdómsins virðist hraður. Þetta gerist reyndar á sama tíma og möguleikar hans eru orðnir nokkuð takmarkaðir. Það er slæm blanda.
Þar sem Ómar Ragnarsson er kominn vel á sjötugsaldur og fáir mánuðir til kosninga, má vænta þess að hann muni böðlast um næstu vikurnar og verði reiðubúinn að grípa í hvaða haldreipi sem er. Hann mun jafnvel íhuga alvarlega tilboð frá Baldri forsetaframbjóðanda og er þá mikið sagt. Þetta verður varla árangursríkt – og örugglega ekki fallegt.
# # # # # # # # # # # # #
Paul, norður-írskur félagi minn frá dvölinni í Edinborg, kemur til landsins í dag ásamt unnustu sinni. Hann verður hér í viku. Geri ráð fyrir að bloggfærslum muni fækka hér meðan á dvölinni stendur.
Paul er verkfræðingur, með doktorsgráðu í verklagsferlum við skiplagningu á steypuvinnu við stórframkvæmdir. Kannski ég get fengið hann til að drekkja Moggablogginu í sementi?