Eitthvað heyrði ég talað um það í útvarpinu á leið til vinnu að 22. janúar væri versti dagur ársins smkv. einhverri rannsókn sem fram hefði farið í útlandinu.
Ekki get ég skrifað upp á það, í það minnsta hefur þetta verið gríðarlega afkastamikill dagur í vinnunni, þótt ekki sé hann nema rétt hálfnaður. Á morgun mætti ég í myndbandsupptöku þar sem ég lét gamminn geysa um sögu hitaveitu í Reykjavík fyrir fræðsluvef OR. Ég sat langan og upplýsandi fund um skipulag lóðarinnar umhverfis safnið, þar sem ég otaði fram mínum hugmyndum. íðan kom fjörugur hópur frá Austurbæjarskóla í heimsókn í Rafheima – og safnið tók á móti sextíu ára gömlum Elektrolux-ísskáp sem hefur merka sögu.
Seinnipartinn ætlum við Sverrir að fjalla um sögu stærðfræðinnar í vísindasögukúrsinum og í kvöld dreg ég tengdapabba með mér í Friðarhúsið að horfa á handboltaliðið vinna frægan sigur á Frökkum.
Og svo á ég frábæra konu og snjallasta barn í heimi.
Nú þyrfti bara einhver að stjaksetja Moggabloggið og þá væri þetta fullkomnað!