Urr! Þetta áttu að vera kosningarnar þegar Framsóknarflokkurinn yrði nálega þurrkaður út – eða honum greitt slíkt högg að hann stæði ekki upp aftur. Líkurnar á því fara minnkandi. Ekki vegna þess að Framsókn sé eitthvað minna glötuð en fyrr, heldur vegna þess að flokkarnir sem eru með okkur í stjórnarandstöðu eru drasl.
Hvaða helvítis læmingjahegðun er að grípa um sig hjá þessu liði? Frjálsyndi flokkurinn er að fremja sjálfsmorð. Það sjá allir. Samfylkingin er heltekin af sjálfseyðingarhvöt og virðist fá eitthvert undarlegt kikk út úr því að ræða vandamál sín á torgum. Þetta er fólkið sem leyfði Sjálfstæðisflokknum að ná þessari drottnunarstöðu í íslensku samfélagi með því að tala ekki um annað allan tíunda áratuginn en skipulagsmál vinstrimanna – líkt og ekki væri hægt að standa í neinni pólitískri umræðu fyrr en ljóst væri hvort vinstriflokkarnir væru einn, tveir eða þrír. – Og núna ætla þau að byrja upp á nýtt! Er ekki hægt að skila þessu liði?
# # # # # # # # # # # # #
Nýjasti lukkuriddarinn í pólitíkinni, Ómar Ragnarsson, var í Kastljósi í kvöld að tala fyrir verstu hugmynd seinni tíma. Ómar vill endurvekja „rúntinn“ í Reykjavík, sem hann telur að geti ekki gerst nema Austurstræti verði gert að tvístefnugötu.
Látum liggja milli hluta þótt umhverfisverndarhetjan eigi þann draum að auka tilgangslausa bílaumferð með útblæstri og hávaða í miðbænum. Gallar hugmyndarinnar eru aðrir og augljósari.
Ómar bendir á að að úti á landi lifi rúntamenningin ennþá góðu lífi. Það hefur ekkert með tvístefnugötur að gera. Fólk fer á rúntinn úti á landi VEGNA ÞESS að það er úti á landi og hefur ekkert betra að gera.
Hinn beiski sannleikur um „rúnta“ er þessi: Þeir sem aka rúntinn eru sautján ára strákar, sem reyna að lokka sextán ára stelpur upp í bílana sína. Þeir sem eru orðnir átján komast inn á kaffihús og bari og þurfa ekki að taka þátt í þessari vitleysu.
# # # # # # # # # # # # #
Á kennarastofunni í Verk- og raunvísindadeild spunnust í dag miklar umræður um Lukku Láka-bækurnar. Mönnum bar saman um að þær séu stórlega vanmetnar, meðan teiknimyndasnobbarar hampa Tinna meira en góðu hófi gegnir. Sagnfræðinördar hrífast af hinum fjölmörgu glæsilegu sögulegu vísunum í Lukku Láka.
Ég ætti að skrifa meira um Lukku Láka hér á næstunni.
# # # # # # # # # # # # #
Er að lesa einhverja skemmtilegustu bók sem ég hef komist í í háa herrans tíð. Meira um það síðar.
# # # # # # # # # # # # #
Megi Moggabloggið hreppa einhvern skringisjúkdóm sem maður heyrir bara um í þáttunum um House!