Þetta var vond helgi í fótboltanum. Luton komst 2:1 yfir gegn Úlfunum en tapaði 2:3. Þetta er annar leikurinn í röð sem þessi úrslit verða. Við erum strangt til tekið ekki í fallsæti, heldur einu stigi þar fyrir ofan – en höfum leikið einum leik meira en næstu lið.
Eina huggunin var sú að öll hin fallbaráttuliðin töpuðu, nema Southend sem náði jafntefli.
Ljósið í myrkrinu hjá okkur Luton-mönnum er að eitt lið er óumdeilanlega í verri málum – það er Leeds. Á sumar seldum við fyrirliða okkar, Kevin Nicholls til Leeds fyrir 700 þús. pund. Leedsarar bundu miklar vonir við Nicholls, sem er alræmdur baráttujaxl.
Það sem af er leiktíð hefur Nicholls ekki náð sér á strik, lent í meiðslum og spjaldavandræðum. Og á dögunum kom hann að máli við Dennis Wise, framkvæmdastjóra Leeds og sagðist vilja fara aftur til Luton. – ímyndin um rotturnar og sökkvandi skipið kemur upp í hugann – þótt sjaldnast leiti þessi skarpgreindu nagdýr í önnur jafnsökkvandi skip…
Einhverra hluta vegna ákvað Wise að rjúka með þessar upplýsingar í fjölmiðla. Það var sérkennileg ráðstöfun. Á fyrsta lagi er sérkennilegt að framkvæmdastjóri rjúki í blöðin með persónuleg samtöl sín við leikmann. Á öðru lagi hefur hann nú komið því svo fyrir að honum er eiginlega ómögulegt að tefla fram Nocholls, leikmanni sem hann hefur afhjúpað sem ótrygglyndan. Og í þriðja lagi verða varla önnur lið en Luton spennt fyrir að kaupa Nicholls í ljósi þessara fregna.
Þó allt sé í skralli hjá okkur á Kenilworth Road, er það ákveðin huggun að staðan virðist ennþá ömurlegri á Elland Road.
Megi Moggabloggið verða Leeds United Íslands!
* * *
Viðbót (5.3. kl.8:35): Hahahaha…