Prófkjörsblogg
Ekki reyndist ég sannspár varðandi prófkjörin hjá íhaldinu í gær. Ég var sannfærður um að þingmennirnir röðuðu sér í níu efstu sætin og gríslingarnir féllu úr leik. Niðurstaðan varð talsvert frábrugðin. Augljóslega mikil hægrisveifla í gangi. Ekki dugði þó Ingva Hrafni að setja tengil af forsíðunni sinni á besta og frægasta bloggara landsins. – Nú er spurningin – hvort skyldu Sjálfstæðismenn almennt láta sér litlu skipta hættuna á að ég komist til valda og áhrifa í þjóðfélaginu eða þeir treysti Ingva Hrafni ekki til að stöðva Stefáns-hraðlestina?
* * *
Nú eru Framararnir að keppa við *#%$&# Val í handboltanum. Ætti maður að skella sér? Njah – ekki til að styrkja rauðklæddu kvikindin…
* * *
Steinunn hringdi í gær í mig þar sem ég sat í makindum á Grand rokk og tefldi við Palla og Hildi. (Að venju vann ég Pál, en Hildur er augljóslega slyngari í skákinni…) – Stelpan var í öngum sínum yfir því að klósettið væri farið að leka á Mánagötunni og allt væri í hönk – auk þess sem tölvan frysi reglulega og ómögulega gengi að splæsa saman ritgerðum þeirra í hópverkefninu í kynjafræðinni. Hvernig á ég að laga lekt klósett – hvað þá í gegnum síma?
Vappaði heim af barnum á vettvang örvilnunarinnar. Öll handklæði heimilisins voru blaut eftir að hafa verið notuð til að stoppa klósetlekann illskeytta. Einhvern veginn var stresstigið orðið of hátt til að sleppa bjúgum í pott og búa til uppstúf. íkváðum í staðinn að fara út að borða. – Enduðum á lókal veitingastaðnum – Maddonnu á Rauðarárstígnum. Ég varð steinhissa að uppgötva að staðurinn er í alvörunni starfræktur, afrgreiðir fínan mat og þangað kemur fólk. Hafði alltaf verið sannfærður um að veitingastaðir við Rauðarárstíg hlytu að vera frontur fyrir peningaþvætti.
Þessi veitingastaðarferð minnti mig á að ég hef ekkert gert í að gera Kaffi Stíg að hverfisbarnum mínum. Getur verið að það sé bara of stórt skref að drekka bjór hinum meginn við Rauðarárstíginn? Þegar ég var í gaggó talaði ég alltaf um fjögur bæjarhverfi Reykjavíkur: vesturbæ, miðbæ, austurbæ og Breiðholt – en samkvæmt skilgreiningu taldist allt það vera í Breiðholtinu sem var austan við Rauðarárstíginn. Hélt að ég myndi verða duglegri að sækja austur á bóginn eftir að ég flutti í Norðurmýrina en sú varð ekki raunin…
* * *
Luton gerði bara jafntefli við QPR um helgina og það á heimavelli. Reyndar voru mínir menn manni fleiri frá 13. mínútu og tveimur mönnum færri frá því í byrjun seinni hálfleiks. Ég er samt að missa trúnna á að við komumst í umspil. Líklega þarf liðið meiri tíma. Svo mun nýr heimavöllur bjarga öllu…
Annars er ég ekki sá sem hef töffaralegasta uppáhaldsliðið í ensku. Bryndís heldur með Grimsby Town. Það er óvenjulegt.
Hrifinn af pælingu hennar varðandi Herra Ísland-keppnina. Það þyrfti að fá svör við þessu…
* * *
Las á einhverjum framhaldsskólavef að FB sé að takast að stimpla sig inn sem stórveldi í Morfís og séu bara sigurstranglegastir í ár. Það gleður gamlan ræðuþjálfara. Helvíti væri gaman ef tækist að rotta saman gamla sigurliðinu frá ´96. – Ef Bóas eða Addi rokk lesa þetta, þá mættu þeir endilega rigga upp rejúníoni…
Jamm