Deux in machina

Á stjórnmálaumræðunni rétt fyrir kosningar eru menn duglegir við að benda á töfralausnir. Raunar eru flokkar sem ekki geta boðið upp á patent-töfralausnir taldir óábyrgir og með vonda stefnu.

Eitt af þeim lausnarorðum sem hvað oftast var gripið til í­ nýafstaðinni kosningabaráttu eru djúpboranir. Þar er um að ræða hið fullkomna slagorð – tækni, sem mögulega kemur fram á næstu árum og getur breytt öllum forsendum og reddað málunum.

Með djúpborun er átt við tækni sem gæti gert það mögulegt að ná mun meiri orku út úr háhitasvæðum en nú er unnt – og jafnvel margfalda orkuframleiðslu núverandi vinnslusvæða.

Það merkilega við djúpborunar-spilið er að það gagnast báðum fylkingum – þeim sem vilja vinda ofan af stóriðjustefnunni og þeim sem vilja halda henni áfram.

Virkjanaandstæðingarnir flagga djúpborunum sem nýrri og spennandi tækni sem sé handan við hornið. Þannig sé tóm vitleysa að fara í­ nýjar virkjanir sem raski og róti, þegar djúpboranir verði mögulegar rétt bráðum – það sé eins og að kaupa sér grammafón rétt áður en geislaspilarinn kemur á markað.

Stuðningsmenn stóriðjustefnunnar færa sér hins vegar draumsýn djúpborananna í­ nyt. Þeir hafna því­ að skuggalega hátt hlutfall nýtanlegrar orku á Íslandi sé bundin í­ stóriðju – enda muni djúpboranir margfalda framleiðslugetuna og enginn þurfi að hafa áhyggjur. Á sama hátt feli stóriðjuáform um allar sveitir ekki í­ sér hættu á virkja þurfi á viðkvæmum stöðum – enda muni djúpboranirnar góðu sjá um að framleiða orkuna fyrir framtí­ðarverksmiðjurnar.

Gallinn er bara sá að enn er engin vissa fyrir því­ að djúpborunarverkefni munu skila neinum umtalsverðum ábata. Það er fullt af spurningum sem ekki er búið að svara og allt eins lí­klegt að engin slí­k orkuframleiðsla eigi sér stað hér á landi á næstu 20 árum. Samt nota stjórnmálamenn úr öllum flokkum þessa tækni sem rök fyrir sí­num málstað. Kjánalegt.

Megi Moggablogginu verða dýft oní­ djúpborunarholu.