Ef ég hefði kosið Íslandshreyfinguna á laugardaginn væri ég núna foxillur.
Á fyrsta lagi vegna þess að flokkurinn náði ekki manni á þing. Það væri þó minnsta málið, enda vissu allir kjósendur Íslandshreyfingarinnar að sú hætta væri fyrir hendi að flokkurinn næði ekki kjöri og að ríkisstjórnin myndi standa. Þetta var einfaldlega áhætta sem þeir tóku og ekkert meira um það að segja.
Á öðru lagi væri ég reiður út í forystufólk VG, Samfylkingar og Frjálslyndaflokksins sem kenna Ómari og Margréti Sverrisdóttur um sigur ríkisstjórnarinnar (sjá t.d. þessa færslu Össurar Skarphéðinssonar). Þetta er ótrúlega móðgandi framsetning, því með þessu er verið að segja að kjósendur Íslandshreyfingarinnar séu fávitar sem hafi verið ruglaðir í ríminu með því að bjóða upp á of marga valkosti.
Ef stjórnarandstöðuflokkarnir líta svo á að þeir hafi átt tilkall til þessara þriggja prósenta sem Ísl.hreyfingin fékk, þá eiga þeir að skamma þessa sömu kjósendur fyrir að vera heimskir, ótaktískir eða vanþakklátir (ekki það að ég sé að mæla með slíkum blammeringum). Að skamma forystufólk Íslandshreyfingarinnar er hins vegar tilgangslaust.
Það er dapurlegt að horfa upp á forystufólk VG, Samfylkingar og Frjálslyndra tala um kjósendur Íslandshreyfingarinnar eins og óvita – en hálfu ömurlegra er þó að heyra leiðtoga Íslandshreyfingarinnar segja slíkt hið sama um sína eigin kjósendur.
Málflutningur Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur er raunar með hreinum ólíkindum. Þau hafa haldið því fram í ræðu og riti að með framboði sínu hafi þau dregið úr sigri Sjálfstæðisflokksins – að öðrum kosti hefði meirihluti kjósendanna nefnilega kosið íhaldið.
Þetta eru makalausar yfirlýsingar í ljósi þess að yfirlýst meginmarkmið Íslandshreyfingarinnar var að fella stjórn Sjálfstæðisflokksins. Formaður og varaformaður flokksins eru þar með að segja að meirihluti þess fólks sem kaus þau sé skyni skroppinn – að um hafi verið að ræða „náttúrulega kjósendur“ Sjálfstæðisflokkinn sem tekist hafi að blekkja til fylgist við andstæðinga íhaldsins. Eru þetta boðleg rök? Gefur ekki auga leið að kjósandi sem greiðir atkvæði sitt flokki sem hefur það meginmarkmið að „losna við stóriðjustjórnina“ er tæpast líklegur til að líta á aðildarflokka þessarar sömu ríkisstjórnar sem næstbesta kost?
Ég minnist þess ekki að hafa heyrt forystufólk í stjórnmálum tala jafnóvirðulega um eigin kjósendur og formaður og varaformaður Íslandshreyfingarinnar gera nú fáeinum klukkustundum eftir kosningar. Það gefur ekki góðar vonir um að hreyfingin verði lífseig.
# # # # # # # # # # # # #
Horfði á KR-inga taka út fyrri árlega tapleik sinn gegn Keflavík. Hvernig stendur á því að Keflvíkingar eru með svona gott tak á KR? Gaman væri að vita það.
# # # # # # # # # # # # #
Nú hef ég í fyrsta sinn farið í nýju IKEA-verslunina. Það er nokkuð sem ég óska ekki mínum versta óvini. Og þó… megi Moggabloggið læsast inn í IKEA og villast á milli geisladiskastanda og bastkarfa til eilífðarnóns.