Af menningarástandi
Á grasekkilsstandi mínu lá leiðin á Kaffi Stíg ásamt Palla í gærkvöld. Það er magnaður staður. Selur ekki bjór á krana, en er með ýmsar tegundir, einkum kanadískar, á flösku. Við Páll tókum svona þrjá bjóra innan um heldur skuggalega gesti staðarins. Svo fórum við og fengum okkur nesti. Barþjónninn átti í stökustu vandræðum með að finna poka undir varninginn. Á meðan stærði hann sig mikið af því að hafa aldrei lent í vandræðum fyrir að selja út af staðnum – öfugt við ýmsa samkeppnisaðila hans. Hafi markmiðið verið að sannfæra okkur um að Kaffi Stígur sé ekki rottuhola, þá mistókst það. – En rottuholur geta svo sem verið ágætar til síns brúks.
Þvínæst var skundað á Mánagötuna, þar sem flestar ljósaperur eru sprungnar og heimilið því myrkvað. Spiluðum við Cave lengst frameftir nóttu og tefldum. Ég vann þrjár, Palli þrjár og eitt jafntefli. Hápunkturinn var þó þegar mér tókst á glæsilegan hátt að heimaskítsmáta Palla.
Hann þykist vera þunnur núna. – Aumingi…
* * *
Á seinni tíð blogga ég nánast aldrei um pólitík. Það geri ég til að hefja mig yfir dægurþras stjórnmálanna, enda verð ég að gæta stöðu minnar sem sameiningartákn íslenskra bloggara, sómi þeirra, sverð og skjöldur. Samt verð ég að hrósa pistli Helga Hjörvars í dag. Öfugt við ýmsa vini mína hef ég alltaf verið dálítið hrifinn af Helga. – Erum við kannski svona líkir í innræti?
* * *
Lýsi hins vegar frati á happdrætti R-listans. Þar vann ég ekki neitt. Ekki hefði verið leiðinlegt að fá eins og einn Tolla upp á vegg. (Eru ekki alltaf Tolla-málverk í vinning í pólitískum happdrættum?
* * *
Frægi kall dagsins á Minjasafninu var Hrafn Gunnlaugsson. Hann hefur merkilegar hugmyndir um lífið og tilveruna.
Jamm.