Ormurinn ratvísi
Ormurinn var með bráðskemmtilega nördafærslu um götuheiti í Reykjavík. Hann rifjar upp götunafnið Fjallhaga, sem er gott nafn á skemmtilegum göngustíg. Sú var hins vegar tíðin að Fjallhaginn hafði öðru og veigameira hlutverki að gegna, því á gömlum Reykjavíkurkortum sést að hann náði alla leið út að Suðurgötu, þar sem Sturlugata tók við af honum.
Sturlugata er er litla gatan sem fyrir aftan Odda og írnagarð, milli Suðurgötu og Norræna hússins. Hún er nú að fá veigameira hlutverk en fyrr, því líta má á aðkeyrsluna að nýja Náttúrufræðihúsinu sem framlengingu á henni. Býst ég við að Náttúrufræðihúsið verði talið standa við Sturlugötu – annað væru mikil vonbrigði! – Hér má hins vegar segja að sagan sé komin í hring, því um miðja 20. öld gerði bæjarskipulagið ráð fyrir að Sturlugatan næði alla leið út að Njarðargötu, yfir Vatnsmýrina. Þá hefði sem sagt verið hægt að fara um Sturlugötu, Fjallhaga og Furumel – á milli Njarðargötu og elliheimilisins Grundar. Sniðugt!
Annað kjúríosítet þessu tengt varðar Suðurgötuna. Okkur er tamt að telja Suðurgötu ná frá Túngötu suður í Skerjafjörð. Það hefur hins vegar ekki alltaf verið svo. íður fyrr náði Suðurgatan einungis frá Túngötu út að hringtorginu fyrir framan Þjóðminjasafnið. Þá tók við gatan Melavegur. Samkvæmt korti frá Teiknistofu skipulagsins frá 1951, var gert ráð fyrir að Melavegur endaði í Hringtorgi þar sem saman kæmu Ægissíða, Njarðargata (nú Þorragata) og vegurinn suður í Skerjafjörð. Það hringtorg átti að vera rétt sunnan við Starhaga, en ekkert varð úr framkvæmdum.
Annað skemmtilegt kjúríosítet tengist götunum Skúlatúni og Mjölnisholti. Þessar götur voru um hríð samtengdar og nefndust einu nafni Mjölnisvegur. Nafnið draga þær af fyrirtækinu Mjölni sem stofnað var á fyrsta áratug 20. aldar.
Þriðja skemmtilega kjúríosítetið tengist svæðinu umhverfis Sundhöllina. Þar sýna gömul Reykjavíkurkort tvö götuheiti sem flestum munu ókunn í dag: Flosagötu og Droplaugarstíg. Flosagata lá smkv. þessum kortum sunnan Sundhallarinnar milli Barónsstígs og Hringbrautar (Snorrabrautar) og var samsíða Egilsgötu og Leifsgötu. Droplaugarstígur var hins vegar samkvæmt þessu milli Flosagötu og Bergþórugötu, neðan við Sundhöllina – samsíða Snorrabrautinni.
Á töflu um lengd og breidd gatna og gangstétta í Reykjavík 1. jan. 1941 kemur fyrir nafnið Lóugata. Þar eru árið 1944 skráðir 12 íbúar. Hvar skyldi þessi gata hafa verið? Við Fálkagötu? – Kannski hún hafi verið í grennd við „Súlugötu“ en þar eru fyrst skráðir íbúar 1942.
Og úr því að verið er að grúska í íbúaskrám, þá væri gaman að vita hvar „Defensorsvegur“ var, en þar bjuggu 3 árið 1940, 4 árið 1943 en enginn árið 1944. Ætli þetta hafi verið hermannabyggð?
Og rétt að lokum – „Títangata“ – ekki er það amalegt nafn! Þar á annan tug manna 1935 og aftur 1940.
Já, ég veit. Ég er nörd þegar kemur að malbiki og götum…