Fleiri áramótaheit…
But personally I can’t help feeling that when Joe Strummer’s dead while Cliff Richard lives, there can be no more solid proof that there is no God.
– Mark Steel, 1.1.2003
Jæja, aldrei þessu vant tók ég upp á því að sverja áramótaheit á Múrnum, þess efnis að flytja til landsins erkisnillinginn George Monbiot. Raunar er ég þegar farinn að slá af þessu loforði, þar sem ég er alveg til í að ræða það að flytja inn einhvern annan útlending en Monbiot, enda enginn hörgull á fólki sem gaman væri að fá til landsins. Þannig mun ég beita mér eins og ég get fyrir því að VG bjóði Tommy Sheridan, formanni skoskra sósíalista á landsfund flokksins næsta haust.
Eftir að hafa lesið markmiðaskrá Pönkarans, sé ég að nauðsynlegt er að bæta við þennan markmiðalista. Pönkhjúkkan telur upp þá tónleika sem hann stefnir að því að halda á árinu og bæklinga sem hann langar til að gera. Sérstaklega lýst mér vel á að hann ætli að hrista upp í 1. maí og pönkast á verkalýðsforkólfunum. Pant fá að vera með! – 1. maí er líklega ömurlegasti dagur ársins eins og málum er núna háttað. Það er búið að breyta kröfugöngunni í skrúðgöngu með einhverjum h******* dixílögum og ræðuhöldum dauðans. Ég trúi ekki öðru en að hægt sé að fá fólk til að gera eitthvað að viti á þessum degi.
Og úr því að farið er að tala um aðgerðir sem brýnt er að efna til, þá er alveg ljóst að þegar og ef Bandaríkin fara að drepa fólk í írak verða friðarsinnar að láta í sér heyra. Ef svo fer sem horfir mun George Bush sjá manni fyrir nægum verkefnum í janúar, febrúar og jafnvel lengur. – Af sama toga eru svo útgáfuverkefnin sem Samtök herstöðvaandstæðinga þurfa að rekast í. Stór Dagfari verður að koma út á næstu vikum og seinni hluta ársins verður að byrja á næsta stóra útgáfuverkefni – ljóðakverinu margumrædda.
Á flokkapólitíkinni ætla ég að reyna að halda mér eins mikið til hlés og mögulegt er á kosningaári, en ef svo fer sem horfir með einn félaga minn er ljóst að það mun ekki takast. Þetta verða því býsna hektískir mánuðir fram að kosningum.
Vinnan býður upp á verkefni líka. Ef ég fæ Sverri Guðmunds til starfa í sumar (já Sverrir, þetta er formlegt vinnutilboð) ætti að takast að stokka sýninguna upp allverulega hér á safninu. Svo verð ég að láta til mín taka varðandi Gvendarbrunna- og Perluna. Á báðum stöðum er fyrir hendi frábær sýningaraðstaða sem fyrirtækið er ekki að nota að neinu viti.
Akademískt eru ýmis tækifæri en fátt fastákveðið. Held reyndar fyrirlestur í febrúar ásamt Skúla Sigurðssyni, en þar fyrir utan hef ég ekki lofað að skila neinu frá mér. Auðvitað ætti ég að drullast til að skila grein í Sögu. Annað væri aumingjaskapur. Þá verð ég að gera skurk í að fara í gegnum gömlu bréfin frá Steinþóri langafa. Ef ég geri það ekki, gerir það enginn og það er fullt af merkilegum hlutum að finna þarna.
Er þetta ekki prýðilegur áramótaheitalisti?