Hópur eldri borgara úr Borgarnesi heimsótti Minjasafnið í dag. Þetta var alltof stór hópur, um 110 manns, sem aldrei hefði verið sendur til mín í einu lagi ef ekki hefði verið fyrir opnun gestamóttökunnar í Hellisheiðarvirkjun (sem þýddi að allir og ömmur þeirra voru upptekin þar).
Ég ákvað að taka Ólínu með mér, vitandi að hún yrði ekki til friðs meðan á kynningunni minni stæði – en að það myndi engu máli skipta þar sem lítil ljóshærð, kröftug og síblaðrandi stelpa myndi bræða gamla fólkið. Það svínvirkaði.
Grísinn hljóp um allt, lék listir sínar og spanaðist bara upp við alla athyglina. Og þau gömlu elskuðu það. Ekki síst eldri frú úr Breiðafirðinum sem heitir líka Ólína.
Er alvarlega að spá í að skrifa út reikning fyrir hönd barnsins. Hvort er eðlilegra (og heppilegra frá skattasjónarmiði) að ég geri hana að verktaka og skrifi fjögurra tíma útkall – eða að ég leigi hana út sem leikmun? Leikmunir þurfa varla að borga tryggingargjald eða í lífeyrissjóð…
# # # # # # # # # # # # #
Skotarnir klúðruðu þessu. Helvítis!
Þá er bara eitt fyrir mig að gera. Að halda aftur með Grikkjum 2008.
Ég var einn sárafárra sem hélt með gríska liðinu frá fyrsta leik 2004 – og fagnaði sigrinum vel. Þrátt fyrir Evrópumeistaratitilinn held ég að stuðningsmönnunum muni ekki fjölga mikið. Lifi Rehagel!