Óhefðbundnar lækningar

Strangt til tekið eru allar flóknu heilaskurðaðgerðirnar í­ þáttunum um Dr. House lí­klega óhefðbundnar lækningar í­ þeim skilningi að það er varla daglegt brauð að opna höfuðkúpuna á fólki og eltast með töngum við fágætt matarofnæmi sem framkallar sveppasýkingu í­ heilaberki þegar það blandast saman við væga blýeitrun… eða hvað svo sem plottið er alltaf í­ þessum þáttum.

Samt teljast allir stælarnir í­ doktor House vera hefðbundnar lækningar – þær óhefðbundnu ganga fremur út á eitthvað hversdagslegt eins og að svolgra hert hákarlalýsi. – Raunar er hugtakið óhefðbundnar lækningar ónýtt í­ bókstaflegri merkingu sinni, raunveruleg merking er í­ raun: aðferðir-sem-sumir-segja-að-lækni-fólk-en-ví­sindastofnanir-viðurkenna-ekki.

Það hefur verið magnað að fylgjast með því­ hvað óhefðbundnar lækningar hafa orðið „meinstrí­m“ í­ umræðunni á ótrúlega skömmum tí­ma. Ótrúlegasta fólk hefur tröllatrú á hómópötum, grasalækningum, nálastungum o.s.frv. Þessi þróun hefur kallað á tvenns konar viðbrögð:

i) Andófsviðbrögð ví­sindahyggjumanna – sem vilja vernda ví­sindin fyrir kerlingabókunum og afsanna þetta húmbúg.

ii) Kröfur þeirra sem trúa á óhefðbundnar lækningar um að þær séu viðurkenndar – einkum á þann hátt að rí­kið niðurgreiði þær og iðkendum þessara greina sé veittur einhver sess innan sjúkrahússkerfisins.

Ég er ósammála báðum hópunum.

Sú harða samkeppni sem viðurkennd læknaví­sindi eiga við að strí­ða frá öllum spjaldhryggs-þerapistunum og hómópötunum, snýst ekki um að það sí­ðarnefnda sé búið að koma sér upp of sterkri stöðu sem þurfi að rí­fa niður með ví­sindalegum afhjúpunum. Vandinn snýst um stöðu læknaví­sindanna sjálfra sem hafa glatað mætti sí­num í­ hugum margra Vesturlandabúa.

Viðfangsefni læknaví­sindanna í­ dag eru önnur í­ dag en fyrir fimmtí­u árum – eða hundrað árum, þegar menn gældu við hugmyndina um sjúkdómalausa framtí­ð. Einn galli hefðbundinna lyflækninga er t.d. sá að sjúklingurinn er ekki sjálfur gerandi í­ baráttunni. Honum er sagt að bí­ða rólegur meðan töflurnar með langa nafnið vinna sí­na vinnu. Óhefðbundnar lækningar bjóða honum hins vegar hlutverk – viðfangsefni.

Virkur og leitandi einstaklingur sem greinist með sjúkdóm vill geta hjálpað til sjálfur. Hann vill leita að greinum á netinu, lesa bæklinga og tí­maritsgreinar – gera eitthvað! Læknaví­sindin geta ekki komið til móts við þessar þarfir nema að sáralitlu leyti (og þá helst með almennum lí­fsreglum á borð við að fara í­ sund og hætta að drekka 15 bolla af kaffi). En þau eiga svo sem ekki að gera það heldur – þeirra hlutverk er að lækna sjúklinginn, ekki að hafa ofan af fyrir honum á meðan.

Á dag, þegar eitt helsta viðfangsefni læknaví­sindanna á Vesturlöndum er hæggengir sjúkdómar – eða viðvarandi ástand – s.s. ýmsir stoðkerfissjúkdómar, má nokkuð ljóst vera að eftirspurnin eftir óhefðbundnum lækningum mun ekki minnka heldur aukast. Það skiptir ekki máli hvað Pétur Tyrfingsson,vantru.is eða aðrir draugabanar leggja sig fram um að berja á kuklurunum, þessi geiri á bara eftir að stækka.

Og í­ sjálfu sér þarf það ekki að vera neitt vandamál fyrir læknaví­sindin – svo fremi að fólk í­myndi sér ekki að allt grasaseyðið komi í­ staðinn fyrir alvöru lækna og apótekara. Þannig vorum við Steinunn á tí­mabili orðin verulega langþreytt á endalausum eyrnabólgum barnsins. Við vorum farinn að leggja okkur eftir hvers kyns húsráðum – og splæstum meira að segja í­ einhverjar þrúgusykurstöflur frá einhverjum hómópatanum (vitandi að þetta væri í­ versta falli skaðlaust gutl). Þetta var að sjálfsögðu ekkert annað en kostnaðarsöm tómstundariðja milli þess sem við fórum með barnið til lækna sem dældu í­ hana fúkkalyfjum – og að lokum til sérfræðings sem setti rör í­ eyrun (og losaði okkur við óværuna – 7,9,13).

Spiked eru með fí­na grein um óhefðbundnar lækningar. Þeir eru – fyrirsjáanlega – miklir ví­sindahyggjumenn, sem telja óhefðbundnar lækningar skrum, en eru þó eins og ég á þeirri skoðun að læknaví­sindin geti bara sjálfum sér um kennt.

Niðurstaða pistlahöfundarins á Spiked er að óhefðbundnar lækningar hafi það sér til ágætis að þær veiti þeim sem þær nota innri frið – en að læknaví­sindin eigi að lækna en ekki kæta. Þetta eru mikil sannindi.

Einmitt þess vegna eigum við ekki að taka inn óhefðbundnar lækningar í­ sjúkrakerfið. Menn geta barist fyrir því­ að einstakir þættir þess sem í­ dag telst óhefðbundnar lækningar fái viðurkenningu og færist þannig milli sviða – það eru mörg dæmi um lækningaraðferðir sem hafa þannig flust fram og til baka, má þar nefna vatnslækningar við geðsjúkdómum, sem voru góð ví­sindi fyrir 80 árum en ekki í­ dag. Að óhefðbundnar lækningar fái viðurkenningu innan spí­talakerfisins SEM óhefðbundnar lækningar er hins vegar fráleitt.

Eitthvað af því­ sem menn hafa viljað skilgreina sem óhefðbundnar lækningar – s.s. ákveðnar tegundir af nuddi – eru reyndar þess eðlis að þær mætti skilgreina sem sjúkraþjálfun og þá jafnvel verið styrkhæft sem slí­kt – en ekki sem lækningar…

Almennt séð er ég harla ánægður með VG sem stjórnmálaflokkinn minn. Eitt af því­ fáa sem angrar mig við hann er daður sumra þar innan dyra við óhefðbundnar lækningar og hugmyndir um að reyna að koma því­ inn í­ opinbera heilbrigðiskerfið. Sem betur fer hafa það þó aldrei verið meirihlutaraddir.

Jamm.