Ég hef aldrei étið loðnu. Samt skilst mér að hún geti verið bragðgóð og sé jafnvel étin eins og snakk hjá sumum Austur-Evrópubúum.
Þegar ég var pjakkur hafði ég mikinn áhuga á myntum – og þá sérstaklega myntsögu Íslands. Ég spekúleraði mikið í samhenginu í íslensku myntinni og reyndi að lesa út úr henni goggunarröð. Það var rökrétt að marsvínin væru æðst (fimmkall) – enda spendýr. Þorskurinn var á krónunni og augljóslega veigameiri en rækjan. Smokkfiskurinn kom þar fyrir neðan. Hvers vegna skatan væri á fimmeyringnum var ofvaxið mínum skilningi.
Svo kom ný mynt – tíkallinn – með loðnu. Það var bara of skrítið…
Annars þekkti ég loðnu frá því að pabbi var á Hafró í gamla daga. Það var í byrjun níunda áratugarins og menn voru enn ekki búnir að gefa upp alla von um að geggjaðar síldargöngur kæmu aftur að skerinu. Á millitíðinni – og í einhverjum þorskniðurskurðinum – var hins vegar búið að gefa byssuleyfi á loðnuna og henni var mokað upp. Pabbi var talsvert í að rannsaka loðnu – sem mér fannst alltaf veigaminni fiskur en síldin, sem Egill gamli vinnufélagi hans var alltaf að skoða.
Á dag tengi ég loðnufréttir helst við tengdapabba og fólkið á Norðfirði. Þau hafa umtalsverðan hluta af sínum tekjum af loðnufrystingu – ef hún fokkast upp er ekki gaman hjá fólkinu í Neskaupstað.
Mikið vona ég að þeir fari að finna helv. loðnuna…